Talaði í síma án handfrjáls búnaðar

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Strætisvagn og fólksbíll lentu í árekstri á Sæbrautinni fyrr í dag. Að sögn farþega um borð í strætisvagninum var bílstjórinn að tala í farsíma án handfrjáls búnaðs þegar að vagninn ók á fólksbíl. 

„Við stoppum í Mjóddinni og bílstjórinn tekur upp símann og hringdi, ekki með handfrjálsan. Mér fannst það nú í lagi þegar hann var stopp en svo keyrði hann af stað, enn í símanum,“ segir Erna Björk Edwalds, farþegi í vagninum, sem var leið númer 12, í samtali við mbl.is.  „Ég var  eitthvað að hneykslast á þessu og var ekki búin að sleppa hugsuninni þegar hann klessir á lítinn rauðan fólksbíl. Afturrúðan á fólksbílnum springur og hann skýst alveg nokkra metra upp á grasblett.“

Að sögn Ernu stöðvaði strætisvagnsbílstjórinn vagninn og fór út að kíkja á aðstæður. Fyrst skoðaði hann strætisvagninn en fór síðan að tala við konuna sem keyrði fólksbílinn. „Hann talaði varla við hana í mesta lagi tvær mínútur. Síðan fór hann bara aftur upp í vagninn og keyrði í burtu. En síðan tók hann símann aftur upp þegar við vorum komin að Laugarásbíó og talaði í hann ekki með handfrjálsan búnað. Hann eiginlega keyrði bara eins og fantur allan tímann.“

Að sögn Jóhannesar Rúnarssonar forstjóra Strætó er búið að senda fyrirspurn á verktakann sem keyrir þessa leið fyrir Strætó. „Ég hef ekki fengið upplýsingar um hvað gerðist, ég vissi samt að það hefði orðið árekstur en ekki meira,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is. Hann vissi ekki hvort að lögreglu hafi verið tilkynnt um áreksturinn. Hann segir að ef bílstjóri talar í síma undir stýri án handfrjáls búnaðs fær hann alvarlegt tiltal. „Þeir eru bara eins og ég og þú, eiga ekki að tala í símann undir stýri. Þetta er eitthvað sem verður tekið á.“

Samkvæmt upplýsingum frá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er málið ekki komið á borð til þeirra. 

Jóhannes Rúnarsson forstjóri Strætó.
Jóhannes Rúnarsson forstjóri Strætó.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert