„Nágrannavarsla á hálendinu“

Þessi jeppi var stöðvaður í vikunni á Sólheimasandi.
Þessi jeppi var stöðvaður í vikunni á Sólheimasandi. Sigurður Bogi

Það urðu vatnaskil í fræðslu til ferðamanna og vitund þeirra um utanvegaakstur fyrir nokkrum árum eftir að tryggingafélög, ráðuneyti og bílaleigur settu upp upplýsingaskilti við hálendisvegi og bættu upplýsingum um slíka háttsemi í bílaleigubíla. Þetta segir Steingrímur Birgisson, forstjóri bílaleigunnar Hölds, en hann telur að staðan hafi batnað mikið undanfarin ár.

Segir Steingrímur að fræðslan sé stöðugt verkefni og reglulega þurfi að yfirfara upplýsingaefni. Hann segir hugmyndir um að ferðamenn þurfi að horfa á 15-20 mínútna fræðslumyndband eða svæðaskiptingu landsins og sérstök ökuskýrteini vegna þess vera óraunhæft og ekki framkvæmanlegt. Segir hann frekari þróun á þeirri fræðslu sem nú sé unnið að, bætta „nágrannavörslu á hálendinu“ og aukna hörku í innheimtu sekta við erlenda ferðamenn frekar til þess fallið til að draga úr vandamálinu. Þá segir hann nauðsynlegt að ferðamenn séu upplýstir um sektarupphæðir fyrir utanvegaakstur, en slíkt myndi hafa forvarnagildi.

Stærri náttúruslysum fækkað

Steingrímur segir að það sé hans tilfinning að stórum náttúruslysum vegna utanvegaaksturs hafi fækkað á undanförnum árum. „Það þarf þó ekki nema einn til að setja svartan blett á alla aðra,“ segir hann.

Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, Bílaleigu Akureyrar
Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, Bílaleigu Akureyrar Skapti Hallgrímsson

Bendir hann á að fyrir um átta árum hafi tryggingafélögin, ráðuneyti og bílaleigur sett í gang verkefni með það fyrir augum að vara ferðamenn við áður en haldið væri á hálendið. Voru sett skilti við flesta aðgangsvegi að hálendinu þar sem varað var við hættum framundan, sagt að nauðsynlegt væri að vera á fjórhjóladrifnum bíl og að utanvegaakstur væri með öllu bannaður. „Mér fannst vera gríðarleg breyting með uppsetningu þessara skilta,“ segir Steingrímur. Þannig segir hann að mikill munur hafi verið á fjölda undirvagnstjóna á smærri bílum eftir þetta átak, en segir það vísbendingu um að ferðamenn taki mark á því sem standi á skiltinu, en mörg undirvagnstjónanna má heimfæra á akstur á hálendisvegum.

Nágrannagæslan gefist vel

Hann segir bílaleigurnar auðvitað ekki frétta af öllum málum sem koma upp, en að hann verði var við aukna „nágrannagæslu“ almennings á hálendinu. Segir hann að til dæmis hafi sér borist símtöl frá almenningi og starfsfólki í ferðaþjónustu sem bendi á ógætilegan akstur, utanvegaakstur og annað slíkt og það hjálpi allt til við að drepa niður þetta vandamál. Segir hann nauðsynlegt að styrkja þetta samband enn frekar og auka vitund Íslendinga um utanvegaakstur og áhrif hans svo fleiri láti vita af slíku.

Steingrímur er einnig harður á því að sektir í þessum efnum þurfi að vera sýnilegar fyrir fólk og að þegar fólk sé staðið að verki sé hart tekið á því. „Strax og það er eitthvað sem tekur í budduna hjá fólki til viðbótar við auknar upplýsingar, þá snarbreytist þetta,“ segir hann.

Myndbönd fyrir alla ökumenn óraunhæf

Hann er aftur á móti ekki sammála þeim hugmyndum sem fram hafa komið um 20 mínútna fræðslumyndband eða svæðaskiptingu og sérstak ökuleyfi á hálendinu. „Það er algjörlega óraunhæft að fá alla til að horfa á 15-20 mínútna myndband. Það er ekki framkvæmanlegt og tæki of langan tíma,“ segir hann og bendir á að það sé víðar en á Íslandi sem menn fari upp á afskekkta slóða langt frá mannabyggð. „Þegar fólk kemur á hvaða tíma sólarhrings þá er svona ekki framkvæmanlegt,“ segir Steingrímur, en hann telur að bílaleigur eigi þó að sýna gott fordæmi og vera með myndir og varnarorð í afgreiðslum og á fræðsluefni fyrir ferðamennina í bílum.

Utanvegaakstur er oft á tíðum rétt utan við vegslóða, en …
Utanvegaakstur er oft á tíðum rétt utan við vegslóða, en þar hafa menn ætlað að komast hjá snjósköflum eða pollum. Slíkt getur þó skilið eftir mjög ljót för sem gróa hægt. Birkir Fanndal Haraldsson

Ekki rétt að bílaleigur rukki fyrir lögbrot

Meðal þeirra hugmynda sem hafa komið fram við innheimtu á sektum sem ferðamenn fá er að slíkt færi í gegnum bílaleigur, enda hafa þær að jafnaði kortaupplýsingar leigutaka. Steingrímur segir þetta þó ekki ganga upp. Hann segir að bílaleigur geti rukkað leigutaka fyrir brot á skilmálum sínum, en að lögbrot þurfi að fara í gegnum þar til gerða aðila og það sé lögreglan.

Hann gefur þó lítið fyrir að ekki sé hægt að rukka fólk sem hefur farið úr landi. Segir hann að reglulega þurfi bílaleigur að fá erlendar lögfræðiskrifstofur til að rukka viðskiptavini sem séu farnir úr landi. Það taki vissulega stundum tíma og alltaf séu einhverjir sem séu ekki borgunarmenn, en í flestum tilfellum gangi þetta vandræðalaus og fólk vilji ekki vera með svona sektir á bakinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert