Óvissa með Blöndu-samþykktina

Fyrirhugað álver á Hafursstöðum í Skagabyggð.
Fyrirhugað álver á Hafursstöðum í Skagabyggð.

Óvíst er hvort ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen árið 1982 hafi samþykkt að sú orka sem framleidd er í Blönduvirkjun ætti að fara í iðnaðaruppbyggingu á Norðurlandi vestra, eins og vísað var til þegar áform um uppbyggingu 120.000 tonna álvers á Hafursstöðum við Húnaflóa voru tilkynnt í síðasta mánuði. Miðað við þingsályktunartillögu sem var lögð fram á Alþingi nokkrum árum seinna og í svari forsætisráðherra þegar uppbygging Blönduvirkjunar var að hefjast lítur út fyrir að samþykktin hafi frekar miðað að því að ýta undir áframhaldandi atvinnutækifæri fyrir iðnaðarmenn sem komu að uppbyggingu virkjunarinnar eftir að framkvæmdum væri lokið.

Áform um 120.000 tonna álver og 206 MW orkuþörf

Um miðjan síðasta mánuð sendu sveitarfélögin á Norðurlandi og þróunarfélagið Klappir development ehf. frá sér fréttatilkynningu þar sem greint var frá samstarfssamningi um uppbyggingu og rekstur 120.000 tonna álvers við Hafursstaði. Var tilgreint að orkuþörf þess væri 206 megavött sem ættu að koma frá Blönduvirkjun

Frá Hafursstöðum í Skagabyggð.
Frá Hafursstöðum í Skagabyggð. Morgunblaðið/Jón Sigurðsson

 „Áætlanir gera ráð fyrir 240 varanlegum störfum í álveri Klappa og allt að 800 tímabundnum störfum á byggartíma. Orkuþörf álversins er 206 MW, sem reiknað er með að komi frá Blönduvirkjun í samræmi við vilja og samkomulag heimamanna og stjórnvalda þegar virkjunin var byggð,“ segir í tilkynningunni sem send var á fjölmiðla.

Samþykktin frá 1982

Samkomulagið sem vitnað er til er samþykkt ríkisstjórnarinnar frá árinu 1982, en þar kemur fram að Framkvæmdastofnun ríkisins skuli hefja vinnu í samstarfi við heimaaðila til að taka út og móta tillögur um eflingu atvinnulífs á svæðinu. Sérstaklega er iðnaður nefndur í því samhengi. Þá er sagt að athuga skuli hvort fyrirtæki á svæðinu geti komið að framkvæmdum og að koma verði í veg fyrir samdrátt á vinnumarkaði á svæðinu þegar framkvæmdum við virkjunina lýkur. Lesa má samþykktina í meðfylgjandi skjali, en einnig má sjá hana í Alþingisskjölunum sem fylgja hér að neðan.

Ekkert minnst á að orkan verði notuð heima í héraði

Þremur árum seinna leggja nokkrir þingmenn fram þingsályktunartillögu þar sem kemur fram að lítið hafi áunnist í þessum málum og að tillagan sé til að fylgja málinu eftir. Í tillögunni kemur meðal annars fram að sérstaklega skuli athuga möguleika á „uppbyggingu nýrra atvinnufyrirtækja af hæfilegri stærð sem gætu tekið við verulegum hluta af þeim mannafla sem að virkjunarframkvæmdum mun starfa.“ Ekki er minnst á að orkan frá Blönduvirkjun skuli notuð í þessa atvinnuuppbyggingu.

Fyrirhuguð uppbygging álversins við Hafursstaði.
Fyrirhuguð uppbygging álversins við Hafursstaði.

 Á löggjafarþinginu frá 1989 til 1990 leggur svo þingmaður Norðurlands vestra,Sverrir Sveinsson, fram fyrirspurn til forsætisráðherra um úttektina sem nefnd er hér að ofan. Í svari forsætisráðherra, Steingríms Hermannssonar, kemur fram að hann hafi fundað með sveitarstjórnarmönnum á svæðinu og fulltrúa Iðnaðarþróunarfélags Norðurlands fyrr á kjörtímabilinu. Á fundinum er meðal annars lögð fram skýrsla frá Byggðarstofnun þar sem fram kemur að ekki sé að vænta mikils samdráttar vegna framkvæmdanna sem margir óttist í kjölfar virkjanaframkvæmdanna. Er svo tveimur sviðsmyndum lýst og bent á að framkvæmdirnar ættu að gagnast heimamönnum í formi aukinnar þekkingar og möguleika á að byggja upp eigin tækjabúnað. Þá er tekið fram að æskilegt væri að viðhald og viðgerðum væri sinnt af heimamönnum. Í svari ráðherra er ekki minnst á hvernig nýta ætti orku frá virkjuninni til uppbyggingar á orkufrekum iðnaði á svæðinu eða að orkan ætti að vera nýtt í héraði.

Samþykktin liðkaði fyrir samningum um virkjun

Í samtali við mbl.is bendir Valgarður Hilmarsson, sveitarstjórnarmaður á Blönduósi, á að samþykktin frá 1982 hafi verið gerð í janúar, en að samningur um virkjun hafi verið undirritaður í mars sama ár. Það sé því ljóst að samþykktin hafi liðkað til fyrir samningum um virkjunina og segist hann lesa það út úr henni og umræðunni sem kom í kjölfarið að leitað yrði leiða til að auka iðnað á svæðinu. Í samþykktinni segir orðrétt „Ríkisstjórnin samþykkir að fela Framkvæmdastofnun ríkisins, byggðadeild, að vinna í samvinnu við heimaaðila að úttekt á atvinnulífi á Norðurlandi vestra og móta tillögur um eflingu þess, þar á meðal á sviði iðnaðar.“ Segir hann ljóst að þarna sé samhengi við notkun orkunnar úr virkjuninni.

Forsætisráðherra, fulltrúar Klappa og sveitafélaga á Norðurlandi og fulltrúar kínverska …
Forsætisráðherra, fulltrúar Klappa og sveitafélaga á Norðurlandi og fulltrúar kínverska félagsins China Nonferrous Metal Industry‘s Foreign Engineering and Construction Co Ltd. við undirritun viljayfirlýsingar um fjármögnun fyrirhugaðs álvers að Hafursstöðum í Skagabyggð.

Vilja nú alla orku úr Blöndu

Hann tekur fram að ekki hafi verið ákveðið á sínum tíma að öll orkan úr Blöndu yrði notuð á svæðinu, en að nú vilji sveitarfélögin það. Segir hann að horfa verði til hagkvæmnisjónarmiða varðandi orkuflutninga og nefnir í því sambandi að ódýrara sé að nota orkuna stutt frá virkjunarstað í stað þess að setja hana á dreifikerfið og senda hana um allt land. Segir hann að mismunandi sjónarmið séu um afföll við lengri flutninga, en að menn geri ráð fyrir 5-12% afföllum þegar slíkt sé gert.

Valgarður segir að nú verði haldið áfram að vinna verkefninu fylgis, en ljóst sé að til þess að það muni ganga upp þurfi að virkja meira og það sé stjórnvalda að ákveða hvar og hvernig slíkt sé gert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert