Pissa í hvert skúmaskot á Íslandi

Ferðamenn stunda ekki eingöngu sjálfsmyndatöku með kjánaprikum. Uppbygging er lykillinn …
Ferðamenn stunda ekki eingöngu sjálfsmyndatöku með kjánaprikum. Uppbygging er lykillinn að lausninni segja ferðaþjónustuaðilar. Eggert Jóhannesson

Svo virðist sem ferðamenn hafi gengið örna sinna víðast hvar um Ísland. Þingvellir, kirkjugarðar og Gullfoss virðast vera nýjustu eða í hið minnsta umtöluðustu staðirnir, en einnig hafa borist fregnir af ferðamönnum sem hafast að næturlangt við skóla og á bílastæðum. Í gær fréttist svo af ferðamanni sem kveikti í sinu í Borgarfirði eftir að hafa lagt eld að klósettpappír sem hann hafði þrifið sig með eftir að hafa gengið örna sinna.

Ástdís Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri Gullfoss Kaffi, sagði í samtali við mbl.is að Ísland hefði verið markaðssett þannig að það þurfi ekki að borga fyrir neitt hérna. Ennfremur hefur Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, bent á að víðsvegar á netinu sé að finna umfjallanir um Ísland sem hvetja til þess að fólk leggi bílum sínum og hafist við næturlangt hvar sem er en því fylgja væntanlega aðrar mannlegar þarfir. Meðal þess sem segir á einni síðunni er: „Í lok ferðarinnar leið mér eins og ég hefði átt í miklum samskiptum við náttúruna í þeim skilningi (hvernig orða ég þetta varlega?) Ég pissaði í hvert einasta skúmaskot Íslands.“

Þurfum að skilja að Róm verður ekki byggð á einum degi

„Á undanförnum árum hefur ferðaþjónustan vaxið mjög ört og slíkum snöggum vexti fylgja, held ég, alltaf ákveðnir vaxtarverkir og áskoranir. Þegar vöxturinn er mjög ör, þá gefst kannski ekki tími til að bregðast við alltaf og ævinlega á þeim hraða sem þyrfti.“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og bætir við að halda þurfi áfram á þeirri braut að horfa til langs tíma og vera ekki föst í viðbragðsstöðu heldur setja langtímamarkmið og áætlanir. „Fjárveitingar þurfa að vera ákveðnar með raunsæjum hætti en um leið þurfum við að gera okkur grein fyrir því að Róm verður ekki byggð á einum degi.“ segir Ólöf. Hún segist ekki geta sagt til um hversu mikið fé þurfi að leggja í innviði til þess að standast álag á ferðamannastaði en það séu umtalsverðar fjárfestingar sem þurfi að ráðast í. Jafnframt að hið opinbera þurfi að einbeita sér að ferðaþjónustunni og koma með öflugum hætti að verkefnum sem snúa að henni.

Barnið vex en brókin ekki

„Það er ólíðandi að ferðamenn nýti sér ekki þá aðstöðu sem þó er fyrir hendi,“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar en hann segir að þó að fjárveiting til uppbyggingar á ferðamannastöðum sem kom til nú í maí, hafi verið jákvætt fyrsta skref, þá sé verk að vinna og betur megi ef duga skal.

Skapti Örn segir að fjölgun ferðamanna í ár hafi verið enn meiri en búist var við og ljóst sé að stóraukið fé þurfi í uppbyggingu innviða. „Barnið vex en brókin ekki, ferðamönnum er að fjölga um 30% á þessu ári en undanfarin ár hefur aukningin verið um og yfir 20%. Aðrar ferðaþjónustuþjóðir horfa fram á 4-5% fjölgun á ári,“ segir Skapti Örn. Hann tekur ekki undir orð Ástdísar um að markaðssetning hafi verið með þeim hætti að hér geti ferðamenn gert eins og þeim sýnist án þess að borga krónu fyrir. Það sé ekki verið að markaðssetja Ísland á þann hátt. Hins vegar sé þjóðin ung ferðaþjónustuþjóð og verið sé að takast á við þær áskoranir sem fylgi eins örri fjölgun ferðamanna á litlum tíma.

Ekki fyrir hvern sem er

„Það er á einhverjum misskilningi byggt að Ísland sé markaðssett ókeypis og við könnumst ekki við það,“ segir Inga Hlín, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu. Hún segir að Íslandsstofa vinni náið með íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum að markaðssetningu erlendis og unnar hafi verið grunnstoðir í markaðssetningu með um 400 ferðaþjónustuaðilum. Undanfarin ár hafi sjónum sérstaklega verið beint að Íslandi yfir vetrartímann. Markhópurinn sem sóst er eftir í umræddum grunnstoðum er ekki hver sem er, heldur fólk á aldrinum 20-65 ára sem er með tekjur og menntun yfir meðallagi og hefur áhuga á því að ferðast sjálfstætt, að sögn Ingu Hlínar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert