„Okkar vara á ekkert skylt við kranavatn“

Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Glacial.
Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Glacial. mbl.is/Golli

„Það er fjarri sannleikanum að vatnið sem við setjum á flöskur sé kranavatn. Kranavatn hefur farið í gegnum gamlar leiðslur um borgina. Okkar vatn kemur beint úr lindinni og fer þaðan beint í flöskurnar. Utanaðkomandi loft kemur fyrst að vatninu eftir að flaskan er opnuð. Varan sem við framleiðum er algjör hágæðavara og á ekkert skylt við kranavatn,“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Glacial, við mbl.is.

Í frétt mbl.is frá því í gær kemur fram að talsvert sé um það að fólk, Íslendingar og útlendingar, kaupi flösku af kranavatni úti í búð. 

Icelandic Glacial selja vatn á 24 mörkuðum um heim allan samkvæmt Jóni er fyrirtækið í stöðugum vexti. „Við komum á markað árið 2005 og salan er stöðugt að aukast, sem er ánægjulegt.“ Meirihlutinn af framleiðslu þeirra fer á markaði erlendis. „Einungis örfá prósent af okkar framleiðslu fer á markað hér á landi en við erum sennilega stærstir í vatni á Íslandi.“

Jón viðurkennir fúslega að í byrjun hafi hann haft litla trú á því að mögulegt væri að selja vatn á Íslandi. „Fyrsta rekstraráætlunin sem ég skrifaði fyrir fyrirtækið gerði ekki ráð fyrir neinum tekjum héðan. En ferðamenn eru vanir að kaupa vatn í flöskum og Íslendingar eru einnig farnir að gera það. Fólk fer út í búð eða sjoppu, er á ferðinni, og vill fá sér vatn. Það er heilbrigt og gott.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert