„Við mælum alls ekki með þessu“

Flutningabíllinn keyrði harkalega á stálbita við suðurmuna Hvalfjarðarganga.
Flutningabíllinn keyrði harkalega á stálbita við suðurmuna Hvalfjarðarganga. Skjáskot af Youtube

„Það er ekkert leyndarmál að þetta var bíll frá okkur og þetta eru mannleg mistök,“ segir Magnús Guðmundsson, hjá flutningafyrirtækinu Einari og Tryggva ehf, við mbl.is. 

Myndskeið sem sýnir flutningabíl á vegum fyrirtækisins keyra harkalega á 600 kg þungan stálbita við suðurmuna Hvalfjarðarganga þann 16. júlí hefur vakið mikla athygli í dag. Sérstaklega þykir furðu sæta að bíllinn hafi komist undir hæðarslána við norðurmunna ganganna og sagði framkvæmdastjóri Spalar í samtali við mbl.is að líklegasta skýringin væri sú að bílstjórinn hefði lækkað bílinn til að komast undir slána, hækkað hann aftur og svo gleymt að lækka hann á leiðinni út.

Magnús útskýrir að bílarnir séu á loftpúðafjöðrum. „Þeir hleypa loftinu úr púðunum til að lækka sig og loftinu er dælt aftur í til að hækka aftur. Það tekur ekki langan tíma.“ Magnús endurtekur að í þessu tilviki hafi verið um mannleg mistök að ræða. „Við mælum alls ekki með þessu og erum auðvitað hundfúlir.“

Forsvarsmenn Spalar segja ólöglegt að hækka bíl inni í göngunum hafi hann verið lækkaður til að komast inn. Magnús segist ekki ætla að svara fyrir aðfarir bílstjórans en kveðst telja að bílstjórar fyrirtækisins fari rétt að þegar þeir eru á ferðinni. 

„Hann átti ekkert að þurfa að lækka þarna. Ef hann hefur verið meðvitaður um að hann væri of hár þá hefði hann átt að fara aðra leið.“

Framkvæmdastjóri Spalar segir hæðatakmarkanirnar hvorum megin í göngunum jafn háar en Magnús vísar því á bug.

 „Það er ekki jafn hátt. Ég hef heyrt að bílar sleppi öðru megin en ekki hinum megin.“

Magnús segist ekki geta svarað fyrir það hvort bílstjórar séu meðvitað að brjóta reglur í göngunum og var ekki tilbúinn að svara spurningum blaðamanns um hvort fyrirtækið hyggðist grípa til sérstakra aðgerða vegna málsins. 

„Maðurinn er ábyrgur fyrir því sem hann gerir. Þetta er maður sem er búinn að fara mörg hundruð sinnum í gegn en svo gerist þetta einu sinni. Hvað varðar þessi tæknilegu atriði, þá veit ég ekkert hvað menn gera. Ég sit ekki í bílunum hjá þeim.“

Fréttir mbl.is

Lækka sig til að komast inn í göngin

Lá við stórslysi í Hvalfjarðargöngum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert