Óska eftir endurupptöku

Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson hafa báðir óskað eftir …
Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson hafa báðir óskað eftir endurupptöku málsins. mbl.is

Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson sem báðir voru sakfelldir í Al-Thani málinu svokallaða hafa óskað eftir endurupptöku málsins. Beiðni þess efnis var send til endurupptökunefndar þann 15. júlí síðastliðinn.

Í endurupptökubeiðninni í máli Hreiðars Más kemur fram að Hreiðar telji Árna Kolbeinsson hæstaréttardómara hafa verið vanhæfan til að dæma í málinu. Af þeim sökum hafi verið verulegir ágallar á meðferð málsins sem hafi getað haft áhrif á niðurstöðuna. 

Sonur Árna starfaði sem forstöðumaður lögfræðisviðs slitastjórnar Kaupþings frá 2008-2013. Telur Hreiðar að hagsmunir slitastjórnar Kaupþings af sakfellingu í málinu séu augljósir og að Kolbeinn hafi verið forstöðumaður lögfræðisviðs Kaupþings á þeim tíma sem málin voru höfðuð. Þá telur Hreiðar einnig að líklegt sé að sonur Árna muni fá greidda háa upphæð í kaupauka verði gengið frá nauðasamningum við kröfuhafa.

Ólafur Ólafsson hefur þegar óskað eftir endurupptöku á málinu en hann var sakfelldur ásamt þeim Hreiðari og Sigurði. Hreiðar tekur í endurupptökubeiðni sinni í einu og öllu undir sjónarmið Ólafs. Endurupptökubeiðni Ólafs byggir á því að Hæstiréttur hafi lagt rangt mat á símtal tveggja manna þar sem vísað var til aðila sem nefndur var Óli og taldi Hæstiréttur að um Ólaf Ólafsson hafi verið að ræða.

Telur Hreiðar að Hæstiréttur hafi gert augljós mistök í máli Ólafs og að það hafi haft veruleg áhrif á refsingu sína sem hafi orðið þyngri en ella hefði orðið. 

Gestur Jónsson, lögmaður Sigurðar Einarssonar staðfestir í samtali við mbl.is að Sigurður hafi einnig óskað eftir endurupptöku málsins. Er beiðni hans sögð byggja á sömu röksemdum og beiðni Hreiðars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert