Konur rétt yfir 20% lögreglumanna

Lögregla að störfum.
Lögregla að störfum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

296 lögreglumenn störfuðu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í fyrra, 243 karlar og 53 konur. Af borgaralegum starfsmönnum embættisins, sem töldu samtals 78, voru hins vegar 54 konur og 24 karlar.

Þetta kemur fram í ársskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins voru alls 208.752 í fyrra en stærð umdæmisins er 1.043 ferkílómetrar. Á svæðinu eru 74 grunnskólar, 158 leikskólar og 15 framhaldskólar. Erlendir íbúar voru 14.692 og fjöldi ríkisfanga 136.

Í skýrslunni er farið yfir ökutækjaflota lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem átti 29 merktar fólksbifreiðar, 11 ómerktar fólksbifreiðar, 12 bifhjól og 4 merktar stórar bifreiðar. Akstur merktra ökutækja nam alls 983.082 km, akstur ómerktra ökutækja 194.354 km og akstur bifhjóla 95.118.

Samkvæmt endurskoðaðri áætlun nam rekstrarkostnaður lögregluembættisins 3,85 milljörðum króna en fjárheimildir 3,83 milljónum króna. Í inngangi lögreglustjóra, Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, segir að niðurskurður á starfstíma embættisins hafi numið 20% og að á sama tíma hafi ársverkum fækkað úr 437 í 363, eða um 17%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert