Fiskistofa norður um áramótin

Aðsetur Fiskistofu í Dalshrauni.
Aðsetur Fiskistofu í Dalshrauni. mbl.is/Árni Sæberg

Höfuðstöðvar Fiskistofu munu flytjast til Akureyrar um næstu árámót í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Í tilkynningunni segir m.a. að með breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands hafi verið lögfest heimild fyrir ráðherra til að taka ákvörðun sem þessa. Þar segi: „Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.“

„Fiskistofustjóri mun flytjast til Akureyrar og starfa þar ásamt starfsmönnum sem þar eru fyrir, öðrum sem óska eftir flutningi norður á Akureyri og nýjum starfsmönnum sem ráðnir verða. Starfsmenn Fiskistofu sem nú starfa í Hafnarfirði munu hafa val um starfsstöð á Akureyri eða í Hafnarfirði,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is