Landhelgisgæslan fær nýjan strandgæslubát

Báturinn hefur hlotið nafnið Óðinn.
Báturinn hefur hlotið nafnið Óðinn.

Rafnar ehf. afhenti í dag Landhelgisgæslunni tíu metra strandgæslubát sem hefur hlotið nafnið Óðinn.

Í fréttatilkynningu segir að um sér að ræða „byltingarkennda bátasmíði sem byggir á algjörlega nýrri hönnun á þessari tegund báta.“ Báturinn muni auki möguleika Landhelgisgæslunnar á að sinna fjölbreyttum verkefnum sínum. 

Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Rafnar ehf., segir að þróun á báti sem þessum hafi staðið yfir í samvinnu við Landhelgisgæsluna síðan árið 2011. Báturinn sé sérsmíðaður og sérstaklega hannaður eftir þörfum Gæslunnar. 

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að Óðinn hafi mikla þýðingu fyrir Landhelgisgæsluna sem geti nú sinnt fjölmörgum verkefnum og staðbundnu eftirliti á hagkvæmari og fljótlegri hátt en á stærri skipum.

„Báturinn eykur meðal annars stórlega möguleika Landhelgisgæslunnar til öryggis- og löggæslu á grunnslóð. Þá eru kostir bátsins miklir þegar kemur að æfingum með þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar sem og varðskipum og öðrum björgunareiningum í landinu. Báturinn mun einnig nýtast sem aðgerðarbátur sprengju- og séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar, sem og í margvísleg löggæslu- og eftirlitsverkefni og önnur sérverkefni,“ segir hann.

Frumútgáfur bátsins hafa verið í prófunum síðustu þrjú sumur við eftirlitsferðir á grunnslóð og við erfiðustu aðstæður.

„Bátur af þessari stærðargráðu er hagkvæm eining bæði til eftirlits og þjálfunar og gerir Landhelgisgæslunni kleift að skipuleggja betur nýtingu báta og varðskipa og bregðast við aðstoðarbeiðnum á grunnslóð með skjótari hætti. Landhelgisgæslan lítur jafnframt á afhendingu Óðins sem fyrsta skrefið í að koma sér upp nokkrum 10 – 15 metra eftirlits- og björgunarbátum til að sinna verkefnum á grunnslóð,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert