Hvalurinn með djúp sár og illa flæktur

Sjá má djúp og ljót sár við sporðinn.
Sjá má djúp og ljót sár við sporðinn. Ljósmynd/Guðlaugur Ottesen

„Hann sást í gær en veðrið var hins vegar ekki nógu gott til þess að hjálpa honum. Við getum, miðað við veðurspá, ekki gert neitt fyrr en um helgina enda þarf góðar veðuraðstæður til að nálgast dýrið með þessum hætti,“ segir María Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands - IceWhale, í samtali við mbl.is og vísar í máli sínu til hnúfubaksins sem nú er flæktur í veiðarfæri á Faxaflóa.

Fyrr í þessari viku fóru nokkrir bátar á vegum Landhelgisgæslu Íslands og hvalaskoðunarfyrirtækjunum Special Tours og Whale Safari í leiðangur, en markmiðið var að losa hvalinn flækta. Erfiðlega gekk hins vegar að nálgast dýrið og náðu menn því einungis að skera af örlítinn hluta veiðarfæranna.

Er hvalurinn því enn illa flæktur.

„Hann er mikið flæktur. Þetta er á sporðinum, fer í gegnum kjaftinn á honum og yfir allan búkinn,“ segir María Björk og bendir á að sá hluti veiðarfæranna sem skorinn var af í fyrri aðgerð hafi einungis verið netaflækja sem dýrið dró á eftir sér. 

Þrátt fyrir allt þetta er hnúfubakurinn nokkuð brattur að sögn hennar. Hann er þó að líkindum eitthvað kvalinn enda með djúp og ljót sár á sporði eftir veiðarfærin.

„Hann er fær um að borða og hreyfa sig, en auðvitað er þetta heftandi. Hann tórir ekkert endalaust svona,“ segir María Björk og bætir við: „Svo á hann auðvitað langt ferðalag fyrir höndum í vetur og þá er nú betra að vera í góðu formi og ekki með þetta í eftirdragi.“

Spurð hvort algengt sé að hvalir flækist með þessum hætti í veiðarfæri við strendur landsins kveður María Björk nei við. „Þetta er í fyrsta skiptið sem við sjáum svona dæmi í Faxaflóa. En maður hefur heyrt af þessu víða erlendis. Síðasta sumar flæktist þó einn hnúfubakur fyrir norðan og Landhelgisgæslan losaði hann.“

Um helgina verður farið í annan leiðangur í þeirri von að losa dýrið úr prísundinni. Munu þá þrjú hvalaskoðunarfyrirtæki, þ.e. Special Tours, Whale Safari og Elding, taka þátt í aðgerðinni auk þess sem Landhelgisgæslan mun að líkindum einnig mæta á vettvang.

„Sú aðferð sem við notum til þess að nálgast þessi dýr er að sigla hægt upp að þeim og reyna þannig að byggja upp traust. Um helgina munum við beita þessari aðferð, gefa okkur góðan tíma í þetta og lesa dýrið og hegðun þess vel.“

Myndband frá fyrri tilraun til þess að losa dýrið: 

Fyrri frétt mbl.is:

Skáru hnúfubak lausan í Faxaflóa

Dýrið er illa flækt í veiðarfærum.
Dýrið er illa flækt í veiðarfærum. Ljósmynd/Guðlaugur Ottesen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert