Sluppu úr landi og engin sekt

Frönsku ferðamennirnir sem staðnir voru að utanvegaakstri skammt frá Vatnsfellsvirkjun í síðasta mánuði eru að líkindum farnir úr landi. Lögreglan náði ekki að hafa hendur í hári þeirra áður en fólkið hélt til síns heima og var ferðamönnunum því ekki gert að greiða sekt vegna athæfis síns.

Þetta staðfestir lögreglumaður á Hvolsvelli í samtali við mbl.is en ferðamennirnir voru staðnir að því að hafa ekið jeppabifreið út af veginum skammt frá Vatnsfellsvirkjun þar sem þeir léku sér svo að því að spóla bifreiðinni í hringi í svörtum sandi innan um viðkvæman gróður.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni voru gerðar tilraunir til þess að ná sambandi við fólkið í gegnum síma. Það skilaði hins vegar engum árangri. Mun ferðafólkið hafa fengið jeppabifreiðina afhenta á hóteli þangað sem henni var svo skilað aftur. „Þá er mjög erfitt fyrir okkur að ná í þau nema sitja fyrir þeim á hótelinu,“ sagði lögreglumaðurinn.

Þegar ferðafólk skilar hins vegar ökutækjum til starfsmanna á bílaleigum er staðan önnur. Þá geta lögreglumenn óskað eftir því við viðkomandi starfsmenn að þeir láti vita þegar verið sé að skila bílnum og geta þá lögreglumenn mætt á vettvang.

Í fyrri frétt mbl.is um málið sagði René Bi­a­so­ne, sér­fræðing­ur hjá Um­hverf­is­stofn­un, athæfi ferðamannanna vera „gróft dæmi um utanvegaakstur.“ Benti hann einnig á að algengur misskilningur sé að hjólför í sandi jafni sig á skömmum tíma. Íslenskur jarðveg­ur er eld­fjallaj­arðveg­ur og því mjög laus í sér. Þar af leiðandi mynda hjól öku­tækja auðveld­lega djúp för í jarðveg­inn sem erfitt er að afmá.

„Ut­an­vega­akst­ur mun ekki minnka þegar umræðan fer alltaf að snú­ast um það hvort ekki sé í lagi að keyra utan veg­ar í sandi. Þá mun til­fell­un­um ein­fald­lega fjölga,“ sagði René.

Voru það tveir starfsmenn Landsvirkjunar sem stóðu fólkið að verki og náðu þeir athæfi þeirra á mynd. Sagði annar þeirra ökumanninn hafa skilið eftir sig djúp og ljót sár sem „sjást mjög greinilega í náttúrunni enda búinn að róta vel á stórum dekkjum.“

Fyrri fréttir mbl.is:

Utanvegaakstur á borð lögreglu

„Gróft dæmi um utanvegaakstur“

Utanvegaakstur náðist á mynd

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert