Gleðigangan í beinni hjá Mílu

Míla hefur stillt vefmyndavél sína á Reykjavíkurtjörn þannig að hægt verður að fylgjast betur með Gleðigöngunni á laugardaginn í beinni útsendingu á slóðinni www.livefromiceland.is. Gangan fer af stað kl. 14:00 en gengið verður frá BSÍ og sem leið liggur meðfram tjörninni og að Arnarhóli. 

Hvert ár flykkjast þúsundir íslendinga og erlendra gesta í miðbæ Reykjavíkur aðra helgina í ágúst til að fylgjast með Gleðigöngunni sem er einn af hápunktum Hinsegin daga. Ekki komast allir sem vilja til að fylgjast með og hafa því misst af því að virða fyrir sér litadýrðina.  Með þessu framtaki Mílu hafa allir þeir sem ekki komast á staðinn möguleika á að fylgjast með göngunni, bæði hérlendis og erlendis. 

Mikill áhugi er hjá landanum fyrir Hinsegin dögum og Gleðigöngunni og ár hvert hafa þúsundir landsmanna flykkst í miðbæinn til að fylgjast með litadýrðinni og skemmtuninni og sýna hinsegin fólki stuðning.

Míla setti upp sína fyrstu vefmyndavél í upphafi goss á Fimmvörðuhálsi árið 2010 og hefur vélunum fjölgað jafnt og þétt síðan. Mikill fjöldi heimsókna eru á síðuna daglega og þar af er stór hluti erlendis frá. Í dag eru vefmyndavélar Mílu sem eru í beinni alls 12 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert