„Bara gleði, gleði og gleði“

Hundurinn Buddha er árviss gestur.
Hundurinn Buddha er árviss gestur. Þórður Arnar Þórðarson

Sólskinsbros var á flestum þeirra tugþúsunda andlita sem gengu um götur miðborgarinnar í dag, þrátt fyrir gráan himinn. Gestir voru af öllum stærðum, gerðum og tegundum, en fjölmargir regnbogaskreyttir hundar fögnuðu fjölbreytileikanum með mannfólkinu. Einn þeirra var hinn fimm ára gamli Buddha.

„Hann hefur mætt öll sín ár og tekur ekki í mál að koma ekki. Við komum fyrir „show-ið“ og til að styðja málstaðinn auðvitað. Þetta eru náttúrulega mannréttindi,“ sagði Gissur Gunnarsson, eigandi Buddha.

Buddha og Gissur.
Buddha og Gissur. Þórður Arnar Þórðarson

Þrátt fyrir öll sólskinsbrosin sótti hráslagalegt veðrið þó að sumum, en Lára Halla Maack var á heimleið þegar mbl.is náði af henni tali.

„Mér er svo kalt,“ sagði Lára. „Ég kom með strætisvagni úr Mosfellsbæ og gekk með göngunni meiripartinn, en fannst hún hreyfast full hægt.“ Hún segir málstaðinn hafa mikið að segja, en litadýrðin jafnvel enn meira. „Ég kem aðallega til að skreyta mig og sjá aðra - og auðvitað til að sjá Pál Óskar. Hann er stórkostlegur og svo fyndinn í dag, á víkingaskipi með bleikum víkingum.“

Lára Halla Maack var á heimleið.
Lára Halla Maack var á heimleið. Þórður Arnar Þórðarson

Framarlega í fjölbreytileikanum

„Við erum bara öll hérna að fagna fjölbreytileikanum,“ sagði Sóley María Helgadóttir, sem mætti í bæinn í góðra vina hópi. Hún fagnar því hve framarlega Ísland standi í málaflokknum og lætur vætuna ekki stöðva sig í að taka þátt í gleðinni. „Ég hef alltaf mætt og er bara með hatt í dag, hann passar andlitið.“

Sóley María mætir á hverju ári.
Sóley María mætir á hverju ári. mbl.is/Rósa Kristins

Klæðnaður gesta var, í takt við tilefnið, æði misjafn og mættu margir skrautlega til fara. Þeirra á meðal voru þær Soffía Sif Baldursdóttir og Hanna Rún Jónasdóttir sem voru í svokölluðu Cosplay. „Þá fer maður í svona búninga af ýmsum karakterum. Þetta er t.d. mikið í teiknimyndasögum og anime,“ sögðu þær vinkonur. Þær eru engir nýgræðingar í gleðigöngunni og tóku enn virkari þátt í fyrra. „Þá vorum við á vagni í göngunni sjálfri, það var ógeðslega gaman.“ 

Hanna Rún og Soffía Sif klæddu sig upp í tilefni …
Hanna Rún og Soffía Sif klæddu sig upp í tilefni dagsins. Þórður Arnar Þórðarson

Regnbogafáninn í uppáhaldi

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég mæti alveg „all-in“,“ sagði handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson. „Páll Óskar er frábær í lokin og þetta er bara geggjað. Það hefði reyndar mátt vera sól,“ sagði Ólafur. Hann var sérdeilis ánægður með regnbogafánann og segir hann bera með sér góða strauma. „Maður er jafnvel stoltari af þessum fána en hinum. Sá er hlaðinn ýmsu, en í þessum býr bara gleði, gleði og gleði.“

Ólafur Stefánsson mætti ásamt dóttur sinni.
Ólafur Stefánsson mætti ásamt dóttur sinni. Þórður Arnar Þórðarson
Ágúst Aðalsteinsson, Kolbeinn Þórðarson og Andri Lúkas Guðjohnsen mættu til …
Ágúst Aðalsteinsson, Kolbeinn Þórðarson og Andri Lúkas Guðjohnsen mættu til að skoða stemninguna. Þórður Arnar Þórðarson
Anna Helga Benediktsdóttir og Kristmundur Ólafsson segja málstaðinn mikilvægan.
Anna Helga Benediktsdóttir og Kristmundur Ólafsson segja málstaðinn mikilvægan. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is