Synti klukkustund skemur en hún hélt

Sigrún á sundi yfir Ermarsundið.
Sigrún á sundi yfir Ermarsundið. Af Facebook síðu Ermarsunds Sigrúnar

„Ég sá það bara á heimasíðu sundfyrirtækisins í dag að tíminn var annar en við héldum, en það var bara skemmtilegt,“ segir Sigrún Þuríður Geirs­dótt­ir sem á laugardag varð fyrsta ís­lenska kon­an til þess að synda yfir Ermar­sund. Hún komst að því í dag að hún hefði synt á tímanum 22 klukkustundir og 34 mínútur, eða klukkustund skemur en upphaflega var talið.

„Þegar við komum yfir frönsku landamærin breyttist tíminn en skipstjórinn gleymdi að breyta klukkunni svo hann reiknaði með að ég hefði verið 23 klukkustundir og 34 mínútur,“ segir Sigrún. Hún segir tímann þó ekki öllu máli skipta, en vissulega hafi það verið skemmtilegt að komast að því að hún hafi verið skjótari yfir en hún hélt.

„Það er bara afrek að þrauka svona lengi en auðvitað er þetta skemmtilegra. Markmiðið var að fara ekki yfir 16 tímana, en svo setti sjóveikin strik í reikninginn því ég kastaði upp og hélt engu niðri í 6 tíma en ég er ótrúlega sátt og tíminn er í raun aukaatriði,“ segir hún.

Sigrún kveðst ekki alveg búin að jafna sig eftir sundið, en hún sé þó öll að koma til. „Hendurnar á mér eru svolítið aumar ennþá, en það tekur nokkra daga að jafna sig,“ segir hún. Aðspurð hvort hún hafi slakað vel á segist hún hafa haldið sínu striki. „Ég fór í góðan göngutúr í dag og held mínu róli en fer bara hægt yfir. Ég er ekki í neinni áreynslu heldur bara að njóta lífsins.“

Þá segist hún enn vera í skýjunum eftir að hafa lokið þessari miklu þrekraun. „Ég er ennþá að átta mig á þessu í rólegheitum og þetta er ennþá að síast inn,“ segir hún. „Það er magnað að hafa náð þessu í fyrstu tilraun því það er ekkert svo algengt svo maður er bara enn að átta sig á því að þetta sé orðið að veruleika.“Frétt mbl.is: Sér mat í hillingumFrétt mbl.is: Synti yfir Ermarsund

Sigrún Þuríður Geirsdóttir.
Sigrún Þuríður Geirsdóttir. Af Facebook síðu Ermarsunds Sigrúnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert