Líkamsstyrkur og íþróttaáhugi í blóðinu

Ólafur Aron Einarsson er mikið hreystimenni.
Ólafur Aron Einarsson er mikið hreystimenni. mbl.is

Ólafur Aron Einarsson gerði sér lítið fyrir og komst í tvígang á verðlaunapall á alþjóðasumarleikum Special Olympics í Los Angeles á dögunum. Hann keppti í lyftingum, enda hreystimenni mikið, einstaklega sterkur og með mikinn íþróttaáhuga eins og hann á kyn til. Hann kom heim með brons fyrir réttstöðu og fyrir heildina í sínum flokki. Óla fannst gaman að kynnast nýju fólki á leikunum.

Þetta var fínt. Rosalega gaman og mikill heiður,“ segir Ólafur Aron Einarsson sem er nýkominn heim eftir langt ferðalag, en hann var einn þeirra íslensku keppenda sem voru á alþjóðasumarleikum Special Olympics í Los Angeles í júlí síðastliðnum. Alls fór fjörutíu og einn keppandi frá Íslandi, en Special Olympics fer fram fjórða hvert ár.

Óli hafði aldrei áður komið til Los Angeles og þetta var í fyrsta sinn sem hann tók þátt á svona stórum íþróttaviðburði, en þarna voru sjö þúsund keppendur alls staðar að úr heiminum.

Óli er tuttugu og tveggja ára og keppti í lyftingum á leikunum og kom heim með tvo stóra brons-verðlaunapeninga um hálsinn. Hann náði þriðja sætinu í réttstöðu, tók þar 137, 5 kíló og þriðja sæti í heildina í sínum flokki, með samtals 300 kíló.

Óli keppti í réttstöðu, hnébeygju og bekkpressu, og þeir voru þrír íslensku keppendurnir í lyftingunum en enginn þeirra var þó í sama flokknum, því þetta var getuskipt. Guðmundur Ásbjörnsson frá Selfossi var elsti keppandinn í lyftingunum, en hann er 59 ára. Vert er að taka fram að Óli lenti í fjórða sæti í hnébeygju og bekkpressu.

Óli er hógvær en segir það vissulega hafa verið stóra stund að standa á verðlaunapallinum.

„Ég gerði bara mitt besta, en var samt ekkert svo hissa þegar ég lenti í þriðja sætinu,“ segir hann og hlær.

Fyrst eftir að íslensku keppendurnir komu út til Los Angeles, gistu þeir í Ontario sem er vinabær og var tekið afar vel á móti þeim. Þar voru allskonar viðburðir og skemmtilegheit en síðan færði hópurinn sig til Los Angeles þar sem setning leikanna fór fram 25. júlí. Merkilegast fannst Óla að vera úti í Bandaríkjunum og taka þátt í stórviðburðinum sem leikarnir eru, og að kynnast öllu þessu fólki, bæði erlendum keppendum og þeim sem voru í íslenska hópnum.

Vann sér eldri mann í sjómann þegar hann var 12 ára

Ár er síðan Óli var valinn til að taka þátt í leikunum og hann hefur æft stíft síðan. Hann æfir hjá Suðra á Selfossi, en þeir eru fáir sem eru í lyftingum hér í hans fötlunarflokki. Óli segist fyrst og fremst hafa byrjað að æfa lyftingar af einskærum áhuga og að þessi íþrótt eigi vel við hann. Mikil hefð er fyrir íþróttaiðkun í fjölskyldu Óla, svo hann heldur heiðrinum og hefðinni á lofti.

Afi hans, Þórir Sigurðsson, var íþróttakennari og langafi hans var enginn annar en Sigurður Greipsson glímukóngur. Hann játar það sposkur á svip að honum kippi í kynið. Auk þess eru þeir líkir, Óli og Sigurður, eins og sjá má á myndinni hér til hliðar af Sigurði glímukappa ungum að árum. Óli er að eðlisfari sterkur og kom það snemma í ljós, rétt eins og hjá langafa hans. Dæmi þar um er að þegar Óli var 12 ára þá vann hann sér miklu eldri mann í sjómann.

Hann segist fyrir löngu vera kominn fram úr mömmu sinni sem hefur æft í líkamsræktinni, og að hann sé orðinn sterkari en hún og fari létt með að lyfta henni sjálfri. Óli er sposkur á svip þegar hann upplýsir um þetta. Móðir Óla, Ágústa Þórisdóttir, segir þetta hárrétt og bætir við að hún sé afar stolt af syninum.

„Þó við leitum langt aftur í tímann, þá hefur enginn í okkar ætt náð því að keppa á slíkum stórleikum sem Special Olympics eru, hvað þá að koma heim með verðlaun úr slíkri för,“ segir hún ánægð og bætir við að þegar íslenski hópurinn kom heim og flugvélin lenti í Keflavík þá fengu þau flottar móttökur og heiðursvatnsboga var sprautað yfir vélina.

Óli ætlar að halda ótrauður áfram að æfa lyftingar enda mikil hvatning sem felst í því að koma heim með tvo verðlaunapeninga.

„Nú er bara að bæta sig, æfa af kappi og gera enn betur,“ segir þessi ungi hrausti maður sem á framtíðina fyrir sér og mamma bætir við að hann geti tekið þátt á mótum hér heima til að halda sér við efnið, bæði á Íslandsmóti og Hængsmóti.

Íþróttaáhuginn í blóðinu

Langafi Óla er glímukóngurinn Sigurður Greipsson í Haukadal í Biskupstungum. Hann vakti snemma á sér athygli sem íþróttamaður, mikill glímukappi og æskulýðsfrömuður. Sigurður var byrjaður að glíma 10 ára gamall en þeir sem unnu að byggingu konungshúsanna á Geysi og við brúargerð á Tungufljóti höfðu glímuæfingar á kvöldin eftir vinnu. Sigurður tók þátt í æfingunum og glímdi við fullvaxna menn. Stundum voru samkomur við Geysi og þá var glímt. Sigurður keppti fyrst opinberlega í glímu 13 ár gamall og stóð hann sig svo vel að hinir eldri og reyndari glímumenn áttu fullt í fangi með að verjast brögðum hans og fimi. Var honum þar strax spáð miklum glímuframa.

Árið 1922 fór Sigurður fyrst fram í glímukeppni um Grettisbeltið, sigraði þar og fékk sæmdarheitið Glímukóngur Íslands. Grettisbeltið vann Sigurður aftur 1923 og var nafn hans á hvers manns vörum. Aftur vann Sigurður Íslandsglímuna 1924, 1925 og 1926 og bar höfuð og herðar yfir aðra glímumenn landsins. Sigurður keppti einnig í frjálsíþróttum og var þátttakandi á árunum 1921-1923 á Allsherjarmóti ÍSÍ við góðan orðstír.

Sigurður stofnaði Íþróttarskólann í Haukadal árið 1927 sem hann rak ásamt eiginkonu sinni Sigrúnu Bjarnadóttur samfellt í fjörutíu og þrjú ár.

(Af vefsíðunni www.hotelgeysir.is)

Óli er tuttugu og tveggja ára og keppti í lyftingum …
Óli er tuttugu og tveggja ára og keppti í lyftingum á leikunum og kom heim með tvo stóra brons-verðlaunapeninga um hálsinn. mbl.is
Óli keppti í réttstöðu, hnébeygju og bekkpressu.
Óli keppti í réttstöðu, hnébeygju og bekkpressu. mbl.is
Langafi Óla er glímukóngurinn Sigurður Greipsson í Haukadal í Biskupstungum.
Langafi Óla er glímukóngurinn Sigurður Greipsson í Haukadal í Biskupstungum. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert