Íslensk erfðagreining gefur þjóðinni jáeindaskanna

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Golli

Íslensk erfðagreining afhenti heilbrigðisráðherra í dag fyrir hönd þjóðarinnar jáeindaskanna. Afhendingin fór fram í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar. Jáeindaskanni kostar um 800 milljónir og er gjöf frá fyrirtækinu.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að íslenskt heilbrigðiskerfi hafi verið vannært um skeið og sé illa tækjum búið. Eitt af því sem það hefur vantað er jáeindaskanni, en hann er orðinn lykiltæki við umönnun krabbameinssjúkra.

Í ár verða um 200 íslenskir sjúklingar sendir til Kaupmannahafnar í slíkan skanna og það er líklegt að notkunin yrði jafnvel meiri ef hann væri til staðar á Íslandi. Jáeindaskannar eru einnig mikilvægir við greiningu á Alzheimers-sjúkdómnum og má reikna með að nokkrir tugir íslenskra sjúklinga yrðu sendir í slíkan skanna á ári hverju ef hann væri til staðar í landinu.

Jáeindaskanni er líka mjög mikilvægt tæki til vísindarannsókna á sjúkdómum í hinum ýmsu líffærum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert