Selja um tíu þúsund kleinuhringi á dag

Í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi mynduðust álíka raðir og á Íslandi …
Í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi mynduðust álíka raðir og á Íslandi þegar Dunkin' Donuts opnaði. mbl.is/Styrmir Kári

Opnun Dunkin' Donuts á Íslandi hefur ekki farið framhjá neinum Íslendingi. Dunkin' Donuts hefur núna rekið kaffihús á Laugavegi 3 í Reykjavík í eina viku og röð hefur verið út fyrir dyrnar alla dagana. Þetta kemur Árna Pétri Jónssyni, forstjóra 10-11 og Iceland, lítið á óvart. Þetta er að hans sögn reynslan af opnun Dunkin' Donuts-staða um allan heim.

„Fulltrúar Dunkin' Donuts voru búnir að segja mér að þetta yrði svona, vegna þess að þetta er það sem hefur gerst úti um allan heim. Í þremur síðustu opnunum hjá þeim, sem voru í Vínarborg, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn, beið fólk meira en sólarhring fyrir utan og yfir hundrað manns biðu í röð. Það seldust á bilinu 10-14 þúsund kleinuhringir á dag. Og fyrstu 7-8 dagana voru biðraðir. Ég taldi mig vita að þetta yrði góð opnun hjá okkur og að það væri mikil stemning fyrir staðnum en ég efaðist samt um að það yrðu þessar tölur,“ segir Árni.

Þrjár milljónir hitaeininga á dag

Að sögn Árna hafa hingað til selst um tíu þúsund kleinuhringir á dag. Jafngildir það rúmlega ellefu seldum kleinuhringjum á hverri mínútu sem staðurinn er opinn. Ef hver kleinuhringur er að jafnaði 300 kaloríur neyta Íslendingar daglega þriggja milljóna hitaeininga í kleinuhringjum Dunkin' Donuts.

Það kom Árna og erlendum fulltrúum Dunkin' Donuts mest á óvart að hærra hlutfall af drykkjum og mat seldist en að jafnaði gerist á opnunum erlendis.

Er þá verið að tala um kalda og heita kaffidrykki, samlokur, beyglur og þess háttar. Yfir þúsund drykkir hafa að jafnaði selst á hverjum degi, sem er rúmlega einn drykkur á mínútu.

Tveir nýir staðir fyrir áramót

Áætlað er að opna tvo nýja staði fyrir áramót, eitt kaffihús og einn inni í 10-11 verslun eða Skeljungsbensínstöð. Að sögn Árna er ekki verið að horfa á miðborgina varðandi opnun á nýjum stað, heldur annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. „Við ætlum að hafa einhverja vegalengd á milli staðanna,“ segir hann. „Menn sjá hvað þetta vekur mikla athygli þannig það eru margir að bjóða okkur húsnæði og við erum aðeins að skoða og meta þetta.“

Ódýrt meðlæti með kaffinu

Árni segir velgengni staðarins vera afurð frábærrar staðsetningar og góðrar vöru sem seld er á vægu verði og hefur verið markaðssett vel. Hann nefnir sem dæmi að ein múffa kosti á venjulegu kaffihúsi í Reykjavík 549 krónur. Hjá Dunkin' Donuts sé hægt að fá hágæðamúffu með fyllingu á 349 krónur. Að sama skapi kosti hver kleinuhringur 300 kr. og ef sex kleinuhringir séu keyptir sé greitt fyrir fimm. Þá er greitt fyrir níu ef tólf kleinuhringir eru keyptir. Enn fremur nefnir Árni að lítill kaffibolli hjá Dunkin' Donuts sé jafn stór og miðlungsbolli hjá keppinautum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert