Stjórnvöld endurskoði afstöðu sína

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuvegnanefndar Alþingis, sagði í Vikulokunum á Rás 1 í morgun að íslensk stjórnvöld ættu að endurskoða afstöðu sína gagnvart Rússlandi ef Evrópusambandið sýnir ekki álíka stuðning og Íslendingar hafa gert.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafi í gær átt samtal við utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Ákveðið var að viðræður myndu hefjast á næstunni við sambandið um tollaívilnanir af hálfu ESB í þeim vöruflokkum sem verða verst úti í kjölfar innflutningsbanns Rússa.

„Samstaðan sem við erum að sýna með þessu skrefi okkar, hversu rík hún er þá hjá okkar bandalagsþjóðum?“ spurði Jón í útvarpsþættinum. Það væri eitthvað sem menn hlytu að láta reyna á núna af öllum þunga.  

Aðspurður hvort þetta þýddi að Ísland ætti hugsanlega að ganga út úr aðgerðunum gegn Rússum, verði ESB ekki við þessum óskum svaraði Jón: „Ef samstaðan er ekki ríkari af hálfu bandalagsþjóða okkar, ef sú staða kæmi upp að þeir væru ekki að sýna okkur fulla samstöðu og skilning á okkar stöðu í þessu máli, þá hljótum við að taka það inn í myndina varðandi ákvörðun okkar um framhaldið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina