19 kynferðisbrot á höfuðborgarsvæðinu

Nauðgun er glæpur
Nauðgun er glæpur mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tilkynningar um 19 kynferðisbrot í síðasta mánuði sem 33% aukning frá því í júní. Þetta eru fleiri brot en að meðaltali síðustu þrjá mánuði á undan sem og síðustu 12 mánuði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í afbrotatölfræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir júlí.

Kynferðisbrotum hefur hins vegar fækkað um 23% samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára. En fjölgað um tíu brot miðað við sama tíma í fyrra. Mikill fjöldi kynferðisbrota var tilkynntur í byrjun árs 2013 í kjölfar mikillar fjölmiðlaumræðu um kynferðisbrot, sem dregur upp meðaltalið.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 752 tilkynningar um hegningarlagabrot í júlí. Tilkynningum fækkaði lítillega á milli mánaða, en voru þó fleiri miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða. Ofbeldisbrotum fækkaði nokkuð á milli mánaða og var fjöldi þeirra svipaður meðaltali síðustu 12 mánaða.

Eins fækkaði fíkniefnabrotum töluvert, en ekki hafa komið upp eins fá fíkniefnamál á mánuði síðan í desember árið 2013. Alls voru fíkniefnabrotin 94 í júlí sem er nokkur fækkun brota miðað við júnímánuð. Það sem af er ári hafa komið 818 fíkniefnabrot til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en í fyrra urðu málin alls 1130 talsins.

Í júlí voru 78 ökumenn teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna en 63 undir áhrifum áfengis. Alls hafa 510 ökumenn af þeim sem lögreglan hefur stöðvað verið í fíkniefnavímu í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu þar sem af er ári en 392 undir áhrifum áfengis. 

mbl.is