Borgin beri ábyrgð á tónlistarnámi

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framlag ríkisins til tónlistarskóla, samkvæmt samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2011 um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, nægir fyrir um 65% af kostnaði við kennslu nemenda. Samkomulagið breytir hvorki ábyrgð sveitarfélaga á rekstri tónlistarskóla né leysir þau til að mynda undan þeirri skyldu að veita sjálfstæðum skólum, sem hlotið hafa samþykki þeirra, fjárhagslegan stuðning.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá menntamálaráðuneytinu vegna ummæla S. Björns Blöndal, formanns borgarráðs Reykjavíkur og staðgengils borgarstjóra, í Fréttablaðinu í dag um málefni tónlistarskóla í borginni. Þar sagði hann að ríkið hefði ekki staðið við umrætt samkomulag. Samkomulagið fæli í sér að ríkið bæri ábyrgð á tónlistarnámi á framhaldsstigi. Tilefnið er fjárhagslegur vandi fjögurra tónlistarskóla í Reykjavík. Þessu hafnar menntamálaráðuneytið. Fjárhagslegur vandi skólanna stafi af því að Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga, hafi ekki viljað greiða þeim það sem upp á hafi vantað.

Reykjavík með sérskilning á lögunum

„Svo virðist sem Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga í landinu, hafi annan skilningi á ákvæðum laganna en ríkið, þ.e.  að fyrrgreint samkomulag leysi hana undan skyldum gagnvart nemendum í framhaldsnámi í tónlist. Það gengur þvert á skilning þáverandi og núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, og annarra sveitarfélaga, á eðli samkomulagsins,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. Í stað þess að koma að rekstri tónlistarskóla með sama hætti og önnur sveitarfélög hafi Reykjavíkurborg krafist þess að ríkið greiddi fyrir kennsluna að fullu.

S. Björn vísar í samkomulag sem gert hafi verið í vor um að Reykjavíkurborg setti ákveðna fjármuni í tónlistarskólana til þess að leysa bráðavanda þeirra með því skilyrði að ríkið kæmi að málinu í meira mæli en gert er ráð fyrir í samkomulaginu frá 2011. Ráðuneytið segir hins vegar að Reykjavíkurborg hafi aðeins lagt fram samkomulagsdrög í þá veru fyrr á þessu ári, meðal annars til þes að afstýra málsókn tónlistarskólanna á hendur borginni, en ríkið hafi hins vegar ekki gengið að því samkomulagi. Því sé rangt að segja að ríkið hafi ekki virt það.

Skólastjórnendur sammála ríkinu

Fram kemur í frétt Fréttablaðsins að skólastjórnendur í Reykjavík leggi sama skilning í málið og ríkið og telji ábyrgðina liggja hjá Reykjavíkurborg samkvæmt lögum. Fyrir vikið hafi Tónlistarskólinn í Reykjavík stefnt borginni vegna vangoldinna kennslulauna. „Mennta- og menningarmálaráðherra skorar á borgaryfirvöld að endurskoða afstöðu sína í þessu efni og sinna skyldum sínum gagnvart tónlistarskólum borgarinnar á sama hátt og önnur sveitarfélög,“ segir að lokum í tilkynningu menntamálaráðuneytisins.

Frétt mbl.is: Gætu þurft að segja upp kennurum

Frétt mbl.is: Tónlistarskólar stefna í gjaldþrot

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert