Endurnýta sundlaugarvatnið

Svona gæti útsýnið frá tjaldstæðunum í Laugardal orðið verði hugmyndir …
Svona gæti útsýnið frá tjaldstæðunum í Laugardal orðið verði hugmyndir hópsins að veruleika. ljósmynd/Spor í sandinn

Sundkappinn Michael Phelps heldur því fram að allir pissi í laugina. Hvort sem það er satt eða ekki þykir sundlaugavatn sjaldan sérlega lystugt en Startup hópurinn Spor í sandinn sér hinsvegar tækifæri í hverjum dropa.

Einn meðlima hópsins, bygginga - og skipulagsfræðingurinn Aron Leví Beck, rannsakar þessa dagana hvernig best væri að nota affallsvatn úr Laugardalslaug til að hita upp gróðurhús. Hugmynd forsprakka hópsins, Hjördísar Sigurðardóttur, gengur út á að byggja gróðurhvelfingar þar sem hægt væri að stunda fiskeldi samhliða ræktun grænmetis, kryddjurta og ávaxta og nýta vatn og úrgang úr fiskikerunum sem áburð fyrir plönturnar.

Rannsókn Arons er studd af Nýsköpunarsjóði námsmanna og nýtur hann einnig fulltingis Eflu verkfræðistofu, Hornsteina arkitekta- og ráðgjafafyrirtækisins Primordia. Hann segir verkefnið byggja á hugmyndum um vistvænt skipulag og borgarbúskap og að hópurinn leitist við að finna leiðir til að nýta og endurnýta gæði sem annars færu til spillis. Þar kemur vatnið í Laugardalslaug inn í.

„Ég er að skoða hvað gróðurhúsið þarf mikla orku og hversu mikil orka er til staðar í Laugardalslaug sem þau gætu nýtt. Það er náttúrulega hellingur af affallsvatni þarna og laugin er tæmd í það minnsta einu sinni á ári,“ segir Aron.

Hann kveðst hafa leitað um allan heim að fordæmum að viðlíka nýtingu sundlaugavatns en ekkert fundið. Hinsvegar hafi hann heyrt af því að í Noregi sé að finna skautahöll þar sem hitinn frá kælikerfi hallarinnar er nýttur við hitun gróðurhúsa.

„Þó svo að nákvæmlega þessi hugmynd hafi ekki verið framkvæmd áður er hún byggð á hugmyndum um orkulandslag og vistvæna klasa sem t.d. Hollendingar hafa verið að vinna svolítið með,“ segir Aron. „Ég held að það séu engir vistvænir klasar í Reykjavík en þetta passar mjög vel inn í skipulag borgarinnar. Reykjavíkurborg vill vera græn .“

Bændur í borg

Aðstandendur  Spor í sandinn vilja sjá gróðurhvelfingarnar rísa á reitnum milli stúkunnar við Laugardalslaug og farfuglaheimilisins þar sem nú er aðstaða fyrir húsbíla. Aron segir ljóst að gróðurhvelfingarnar geti dregið að sér marga ferðamenn en að öðru fremur þurfi þær að höfða til íbúa nærumhverfisins.

„Við erum fyrst og fremst að þessu fyrir fólkið í hverfinu. Ef við ætluðum að fara út í gríðarlega fjöldaframleiðslu gætum við bara farið í úthverfin og búið til einhver vélmenni. Þetta á að vera milliliðalaust þannig að það þurfi ekki að vera að keyra afurðirnar langar vegalengdir. Í rauninni viljum við bændur í borg.“

Aron segir verkefnið í raun smellpassa inn í Laugardalinn sem eigi eftir allt að vera græn lungu Reykjavíkur. Hundruð þúsunda gesta sækja Laugardalslaug heim ár hvert og telur Aron að andinn í lauginni geti breitt úr sér með tilkomu gróðurhvelfinganna.

„Sundlaugarnar hafa verið okkar torg  í gegnum tíðina og það er fyrst þar sem Íslendingar opna sig og byrja að tala. Það er kannski gamla klisjan um pólitíkina en það er samt stemning. Þannig getur það líka verið í gróðurhúsinu . Það er verið að selja upplifun. Að koma inn í græna veröld allan ársins hring, í hlýtt umhverfi þar sem maður getur keypt sér kaffibolla eða tómata,  mér finnst það í það minnsta mjög svalt.“

Aron bendir á að Ísland veki nú þegar athygli erlendis fyrir góðan árangur hvað jafnrétti varðar. Hann telur að með gróðurhvelfingunum hlotnist Íslandi tækifæri til að vera öðrum löndum til fyrirmyndar hvað vistvænan borgarbúskap varðar og bendir á að ekki sé seinna vænna.

 „Það er verið að ganga rosalega mikið á jörðina. Þetta er bara hænuskref í átt að því að koma betur fram við hana.“

Hægt er að kynna sér Spor í sandinn betur með því að smella hér.

Aron Leví Beck rannsakar hvort nýta megi vatn úr Laugardalslaug …
Aron Leví Beck rannsakar hvort nýta megi vatn úr Laugardalslaug við hitun gróðurhúsa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert