Kanna utanvegaakstur hermanna

Þessi mynd er meðal þeirra sem mennirnir hafa birt frá …
Þessi mynd er meðal þeirra sem mennirnir hafa birt frá ferðinni um Ísland. Eins og sjá má eru mennirnir á ferð utanvega. Ljósmynd/www.operation-ragnarok.co.uk

Tveir skoskir karlmenn ferðast nú um hálendi Íslands á breyttum fjallatrukk. Þeir ætla að keyra upp á fimm íslensk eldfjöll í ágúst og hafa þeir státað sig á utanvegaakstri á vefsíðu sem þeir halda úti vegna ferðalagsins. Málið er í rannsókn hjá lögreglu. 

Í nýlegri færslu segir meðal annars að þeir hafi farið inn á mitt Holuhraun með því að stelast 12 kílómetra langa leið á hrauninu.

Í nýjustu færslunni sem mennirnir birtu í gærkvöldi segir að annar þeirra eigi aðeins viku eftir á Íslandi og nú haldi þeir að hinum alræmda vegi 622, „hættulegasta vegi landsins“ en það er Svalvogavegur á Vestfjörðum. 

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu.

Hvetji aðra til að eyðileggja náttúruna

Margir hafa skilið eftir skilaboð á spjallþræði á heimasíðu mannanna og fordæmt gjörðir þeirra. Eru þeir hvattir til að láta af utanvegaakstrinum hið snarasta, gefa sig fram við lögreglu og biðjast afsökunar. Einhverjir benda á að íslensk náttúra sé mjög viðkvæm og margir hafi barist fyrir því að varðveita hana.

Þá eru þeir hvattir til að taka allar myndir og myndskeið frá leiðangrinum út af síðunni og afhenda lögreglu afrit af gögnunum sem sönnunargögn. „Þið ættuð ekki að deila þessu á internetinu, myndirnar og myndskeiðin munu hvetja aðra ferðamenn til að brjóta lögin á Íslandi og eyðileggja náttúru okkar,“ segir einn þeirra sem skilið hefur eftir athugasemd á spjallþræðinum.

Leiðangur mannanna tveggja, Matthew McHugh og Rhys Rowlands, nefnist Ragnarök. Þeir eru báðir fyrrverandi hermenn. McHugh lét af störfum vegna hjartavandamáls en Rowlands hætti eftir að hann slasaðist á fæti í verkefni í Afganistan.

Umferð á umræddu svæði bönnuð

Lögreglan á Norðausturlandi staðfestir í samtali við mbl.is að málið sé í rannsókn. Í frétt Ríkisútvarpsins kemur fram að verið sé að rannsakað málið í samvinnu við landverði hjá Vatnajökulsþjóðgarði og vakthafandi lögreglumenn uppi í Dreka hvort einhver verksummerki séu eftir mennina.

Haft er eftir Aðalsteini Júlíussyni, lögregluvarðstjóra á Húsavík, að umferð á umræddu svæði sem mennirnir státa sig af að hafa ekið um sé bönnuð og mennirnir hafi verið á lokuðu svæði. Þetta falli undir lög um náttúruvernd og fari eftir eðli og alvarleika brots.

Vefsíða McHugh og Rowlands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert