Bjarni hafði efasemdir frá upphafi

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að það hafi ekki komið á óvart að Ísland var sett á bannlista Rússa en tímasetningar á banninu komu á óvart. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Bjarna í Morgunblaðinu í dag. Bjarni hefur ekki lagt til að viðskiptaþvinganirnar verði afturkallaðar og það  sé ekki til umræðu í ríkisstjórninni að afturkalla aðgerðirnar.

-Kom það á óvart þegar Ísland var sett á bannlista Rússa og hversu víðtækar aðgerðirnar voru gagnvart Íslendingum?

„Ég get ekki sagt að það hafi komið okkur alveg í opna skjöldu. Það var eftir því tekið fyrir ári að Íslendingar voru ekki á bannlista Rússa og segja má að frá þeim tíma hafi mátt gera ráð fyrir hverju sem er. En þetta kemur þó að því leyti á óvart að það er engin stefnubreyting eða nýjar aðgerðir sem kalla á endurskoðun listans núna,“ segir Bjarni.

-En gerðu menn sér frá upphafi grein fyrir þeim hagsmunum sem væru í húfi?

„Viðskiptahagsmunir hafa verið nefndir allan tímann en engin sérstök úttekt svo sem legið fyrir.

Þegar málið kom fyrst til umræðu var talsvert mikil spenna og óvissa vegna ástandsins í Úkraínu. Umræða um þessi mál litaðist því einna mest af þörfinni fyrir samstöðu vestrænna ríkja. Það var og er einhugur um það í ríkisstjórninni að taka afstöðu gegn ólöglegum aðgerðum Rússa í Úkraínu. Þessi afstaða hefur birst með skýrum hætti; forsætisráðherra tók þátt í leiðtogafundi NATO-ríkja þar sem hann hitti forseta Úkraínu og málefni landsins voru í forgrunni, utanríkisráðherrann hafði farið á vettvang í Úkraínu og við áttum þar fulltrúa á vegum eftirlitssveitar ÖSE,“ segir hann.

„Þegar síðan til tals kom að taka þátt í viðskiptaþvingunum ESB fannst mér rétt að spyrja hvort þátttaka í þeim væri nauðsynlegur hluti þess að taka skýra afstöðu í málinu. Afstaða Íslands lá í mínum huga fyrir með skýrum hætti. Það á ekki að vera sjálfsagt að fylgja ESB að máli í einu og öllu í utanríkismálum. Við erum ekki aðilar að sameiginlegri utanríkisstefnu ESB.

Ég bendi á að sum ESB-ríki höfðu áskilið sér rétt til að halda viðskiptum, m.a. með hergögn, áfram þrátt fyrir þvingunaraðgerðirnar. Frakkar virtust þannig framan af ætla að afhenda Rússum herskip sem samið hafði verið um fyrir bannið. Þeir féllu síðar frá því eftir þrýsting frá Bandaríkjunum og ESB en af þessu var ljóst að einstök ESB-ríki ætluðu að gæta sérstaklega að viðskiptahagsmunum sínum.

Þegar skoðað er hvers eðlis viðskiptaþvinganir ESB eru og að þær hafa í raun enga beina tengingu við Ísland, og síðast en ekki síst í ljósi viðskiptahagsmuna, hafði ég frá upphafi ákveðnar efasemdir sem ég kom á framfæri í ríkisstjórn. Við þetta má bæta því við að viðskipti á fjölmörgum öðrum sviðum eru þrátt fyrir viðskiptaþvinganirnar blómleg milli Rússa og ESB,“ segir Bjarni enn fremur.

Ekki rætt reglulega í ríkisstjórninni

„Það er gagnlegt að skoða sögu þessa máls og hvernig það hefur þróast frá einum tíma til annars. Upphafsaðgerðirnar voru þær að frysta eigur nokkurra einstaklinga og svo bættist við þennan lista, sem er orðinn býsna langur listi aðgerða sem hefur verið klæðskerasniðinn í ákveðnum tilgangi af Bandaríkjamönnum og Evrópusambandinu. Það er erfitt að halda því fram að þegar fyrsta skrefið var tekið á sínum tíma hafi menn getað sagt með vissu að það að frysta eigur nokkurra Úkraínumanna og Rússa og setja á þá ferðabann gæti haft einhverjar afleiðingar á borð við þær sem við stöndum núna frammi fyrir. Yfir þetta tímabil gerðist það hins vegar að listinn lengdist og á einhverjum tímapunkti er það skref stigið að banna t.d. ákveðin fjármálaleg viðskipti. Síðan kemur að því að Rússar bregðast við með innflutningsbanni. Frá þeim tíma hafa menn mátt gera ráð fyrir að Ísland gæti orðið fyrir gagnaðgerðum,“ segir hann.

-Ákvarðanir um einstakar þvingunaraðgerðir gagnvart Rússum eru innleiddar með breytingum á reglugerð í vetur, svo sem um bannið við sölu hergagna. Var ykkur ráðherrunum haldið upplýstum þegar listinn var að lengjast?

,,Málið kom til sérstakrar umræðu eftir innflutningsbann Rússa en við höfum ekki farið sameiginlega yfir hverja og eina reglugerð. Þetta hefur ekki verið rætt reglulega í ríkisstjórn,“ svarar Bjarni.

-Þannig að það er að koma á daginn núna hvað Íslendingar eru að gangast undir?

,,Það má segja það, þegar horft er til baka og allar þessar einstöku aðgerðir eru skoðaðar, þá dregst upp mynd af því hvernig málið hefur þróast. Mér sýnist að segja megi um nánast allan listann að hann hafi óskaplega takmarkaða snertifleti við Ísland, ef einhverja. Ekki erum við mikið í því að selja hergögn til dæmis og ekki erum við að fjármagna rússneska banka,“ segir hann.

Ekki til umræðu í ríkisstjórninni að afturkalla aðgerðirnar

-Ef ákveðið yrði að endurskoða þátttöku Íslands, er þá að þínu mati ekki verið að sveigja frá afstöðu Íslendinga gegn yfirgangi Rússa í Úkraínu og á Krímskaga?

„Ég hef ekki lagt til að við afturköllum viðskiptaþvinganirnar og það er ekki til umræðu í ríkisstjórninni að afturkalla aðgerðirnar. Hins vegar þurfum við í ljósi þess sem upp er komið að halda til haga afleiðingunum af innflutningsbanni Rússa fyrir íslenska hagsmuni, koma því á framfæri við bandamenn okkar hverjar afleiðingarnar eru og leita leiða til þess að takmarka áhrifin á efnahagslífið. Það er frumskylda stjórnvalda hverju sinni.

Það er hins vegar ekki gott að segja hvað síðar verður um þetta viðskiptabann. Því miður eru þetta mál sem við höfum í raun og veru enga aðkomu að. Það má gera ráð fyrir því að málið geti tekið breytingum af hálfu Evrópusambandsins. Allt er þetta hugsað til þess að koma á betra ástandi í málefnum Úkraínu og við vonumst til að það komist þíða í samskiptin milli Rússa, Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins, en málið þróist ekki í hina áttina. Það er til mikils að vinna að þíða komist í samskiptin og meiri ró og friður á þessu viðkvæma svæði heimsins sem Úkraína er. En það verður allt að koma í ljós og núna er ekki tímapunktur til þess að segja til um hvað verður í framtíðinni hvað Ísland varðar. En það er grundvallaratriði að sú rödd heyrist skýrt að Íslendingar ætli sér að standa með lýðræðisþjóðum og vilji að alþjóðalög séu virt,“ segir Bjarni.

Samantekt ekki komið á framfæri

-Áttuðu stjórnvöld sig á því að Ísland yrði það land sem myndi taka á sig hlutfallslega stærsta skellinn af viðskiptabanni Rússa?

„Satt best að segja kom það mér nokkuð á óvart að sjá að t.d. í vöruútflutningi yrðum við hlutfallslega fyrir meiri áhrifum en nágrannar Rússa. En Evrópusambandið hefur tekið saman sérstakar skýrslur um þetta og úthlutað tugum milljarða til þeirra svæða og greina sem hafa orðið verst úti. Það má ekki gleyma því að til hliðar við viðskiptaþvinganirnar eru fjölbreytt viðskipti í gangi. Viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins eru á mjög takmörkuðu sviði en Rússar fara fram með breitt og almennt innflutningsbann á matvæli sem er þó hlutfallslega ótrúlega lítið fyrir langflest Evrópusambandslönd. Málið er m.a. erfitt fyrir okkur þar sem markaður fyrir loðnuafurðir sem hafa farið til Rússlands er ekki til staðar í dag,“ segir hann.

-Var ekkert hagsmunamat eða áhættumat unnið hér vegna þessara ákvarðana?

„Það var að minnsta kosti ekki rætt í ríkisstjórninni og slíkri samantekt var ekki komið á framfæri, en eins og áður segir hafa menn ávallt verið meðvitaðir um áratuga viðskiptasamband við Rússa,“ svarar Bjarni.

Spurður hvort menn hafi sofið á verðinum segist hann ekki vilja fella þann dóm. ,,Menn voru einfaldlega í upphafi einhuga um að sú rödd þyrfti að heyrast frá Íslandi að við stæðum með bandalagsþjóðum okkur í afstöðunni gagnvart ástandinu í Úkraínu. Mér sýnist að það sem varðar viðskiptaþvinganirnar hafi flotið með í því samhengi.

Ég var hugsi yfir því hvort það væri sjálfsagt og eðlilegt að Ísland, sem ekki er aðili að Evrópusambandinu og þar af leiðandi ekki með í sameiginlegri utanríkisstefnu þess, tæki undir ályktanir, ákvarðanir og aðgerðir Evrópusambandsins vegna þess að við höfum ekki á neinu stigi málsins átt neina aðkomu að þeim ákvörðunum. Í því sambandi er ég fyrst og fremst að hugsa um að við rekum okkar eigin sjálfstæðu utanríkisstefnu.“

Óvildin skín í gegn

-Komið hafa upp ólíkar raddir á undanförnum dögum um þessi mál og í pistlaskrifum á netinu hafa sumir haldið því fram að um söguleg sinnaskipti sé að ræða á utanríkisstefnu þjóðarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Hverju svarar þú þessu?

,,Mér finnst þetta vera algerlega innantóm orð. En maður les líka á milli línanna hjá sumum að þar skín í gegn óvildin í garð sjávarútvegsins og þeirra fyrirtækja sem stunda útgerð á Íslandi. Maður verður hálfdapur við að lesa slík skrif vegna þess að þau eru til vitnis um að menn eru að tapa tengslum við ræturnar. Þegar stutt er í að það hlakki í sumum yfir því að þjóðin gæti orðið af tugmilljarða útflutningstekjum. Að ná höggi á fiskveiðistjórnunarkerfið er orðið sjálfstætt markmið hjá þessu fólki. En fiskveiðar og arðbært stjórnkerfi er það sem hefur komið undir okkur fótunum, með þessu höfum við byggt upp það samfélag sem við búum í. Það er ótrúlega dapurlegt að lesa þetta.

Það hafa líka fallið allt of stór orð um að hér eigi sér stað einhverjar sviptingar eða grundvallarbreytingar á utanríkisstefnu Íslands. Ekkert slíkt er á döfinni.

Það verður einfaldlega að vera hægt að ræða mál eins og þetta af yfirvegun og á málefnalegum forsendum. Í þeirri stöðu sem nú er komin upp er það fyrst og fremst skylda stjórnvalda að gæta að heildarhagsmunum okkar. Ísland er og verður aðili að Atlantshafsbandalaginu og mun áfram eiga góð samskipti við Bandaríkin og við Evrópusambandið. Tal um annað er fásinna.“

Tímabundnar aðgerðir

Fram hafa komið mjög skiptar skoðanir innan stjórnarliðsins og hafa sumir þingmenn, m.a. innan Sjálfstæðisflokksins, viljað ganga svo langt að taka Ísland út af lista ríkjanna sem styðja þvingunaraðgerðirnar gagnvart Rússum.

„Það liggur ekki fyrir nein tillaga um að afturkalla eitt eða neitt og það er ekki verið að vinna í neinu slíku,“ segir Bjarni. Þetta séu hins vegar tímabundnar aðgerðir sem muni einhvern tíma renna út og þá standi menn frammi fyrir því hvort framlengja eigi þátttöku Íslands.

,,Okkur er mikið í mun að ekki verði misskilið að við teljum að Rússar hafi brotið lög með framferði sínu í Úkraínu og það hefur margoft komið fram með margvíslegum hætti af okkar hálfu,“ bætir hann við.

Viðtalið í heild er hægt að lesa í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert