„Fólk er með allskonar hugmyndir“

mbl.is/Þórður

„Við höfum fengið fullt af viðbrögðum. Fólk er með alls konar hugmyndir um það sem gæti hafa gerst og við höfum skoðað þær hugmyndir eins og okkur þykir ástæða til,“ segir Sveinn Kristinn Rúnarsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi varðandi líkfundarmálið.

Sjá frétt mbl.is: Líkfundur í Laxárdal í Nesjum

Lík af karlmanni fannst við Sauðdrápsgil í Laxárdal í Nesjum á miðvikudaginn. Maðurinn hefur verið 186 sentímetrar á hæð með ljóst axlasítt hár, klæddur í svarta strigaskó með hvítri stjörnu á hliðinni. Hann var í svartri peysu sem stóð á Quiksilver.

Sjá frétt mbl.is: Hafa ekki borið kennsl á líkið

Réttarkrufning fór fram í fyrradag en niðurstaða hennar liggur ekki fyrir. Að sögn Sveins vinnur kennslanefndin nú á fullu við að reyna að bera kennsl á líkið.

Helsta aðferðin við að bera kennsl á líkið segir Sveinn að sé að skoða tennurnar í manninum og bera saman við tannlæknagögn.

Hann segir að ekki sé unnið út frá einhverri sérstakri sviðsmynd. „Við erum að rannsaka málið á fullu, það er allt undir hjá okkur því þetta er aðalmálið. Við förum aldrei svartsýnir af stað í slíka rannsókn, það er allt skoðað,“ segir Sveinn. 

Eins og mbl.is greindi frá í gær fannst enginn farangur á svæðinu sem gæti hafa tilheyrt manninum og engin persónuskilríki. Líkið er sagt hafa legið í dalnum í talsverðan tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert