Kenna smíði keppnisdróna

Brandur Bjarnason Karlsson, formaður Flygildisfélags Íslands og forsvarsmaður námskeiðisins.
Brandur Bjarnason Karlsson, formaður Flygildisfélags Íslands og forsvarsmaður námskeiðisins. Mynd/Brandur

Flygildi hafa undanfarið notið talsverðra vinsælda hér á landi og hafa menn fundið notagildi fyrir slík tæki meðal annars við myndatökur. Þessa nýju tækni er þó hægt að nýta á fleiri vegu og þannig hefur þróast einskonar keppnisgrein með svokölluðum FPV kappflygildum (e. first person view racer drones). Áhugasömum verður á næstunni kynnt þessi angi flygildismenningarinnar betur og hvernig setja eigi slík tæki frá grunni.

Helgina 5-6. september verður haldið námskeið í samsetningu kappflygilda, en þar mun hátækniverkfræðingurinn Jón Halldór Arnarson ausa úr viskuskálum sínum um allt sem við kemur þessari nýju tækni og því sem þarf að hafa í huga varðandi öryggi og beitingu tækninnar.

Brandur Bjarnason Karlsson stendur á bak við námskeiðið, en hann segir að Jón Halldór sé á leiðinni í meistaranám í háþróaðri drónatækni og því hafi verið ákveðið að nýta tækifærið áður en hann færi út til að halda námskeið og fá hann til að deila þeirri þekkingu sem hann hefur safnað upp síðustu tvö árin, en hann hefur meðal annars verið með vinnuaðstöðu í HR þar sem hann hefur sett saman dróna af hinum ýmsu stærðum og gerðum.

Brandur segir í samtali við mbl.is að kappflygildi séu hratt vaxandi grein út um allan heim. Þannig hafi nýlega verið haldin Ameríkukeppni sem tókst mjög vel. Brandur, sem einnig er formaður Flygildafélags Íslands, segir að nú sé verið að leggja drög að slíkri keppni hér á landi, en hann veit af um 5-15 Íslendingum sem hafa verið að prófa sig áfram með kappflygildin undanfarið.

Hugmyndin var þó að halda þetta námskeið áður en farið yrði út í mótahald, enda er margt sem þarf að huga að fyrst. Nefnir Brandur að svona keppnisflygildi geti í dag flogið á um 150 kílómetra hraða á klukkustund og að reiknað sé með að eftir nokkra mánuði verði þau komin upp í 200 kílómetra hraða á klukkustund. Hann segir því nauðsynlegt að huga að öryggisatriðum og öðru sem kunni að koma upp á við stjórnun tækjanna, samhliða því sem fólk lærir að byggja upp eigin tæki.

Keppnisflygildur er að sögn Brands stýrt með því að hafa myndavél á tækinu sem sendir myndir beint í sérstök gleraugu sem viðkomandi er með á sér. Þannig upplifir hann flugið eins og hann sé sjálfur um borð í drónanum.

Það sem Brandur segir hvað mest spennandi við þessa íþrótt í dag er að hún er í mikilli þróun og ef vel takist á litlu móti á Íslandi gæti það haft mikil áhrif á þróun mála út í heimi. Líkir hann þessu við að ef menn væru að prófa sig áfram á upphafsdögum fótbolta með það hversu stór mörkin ættu að vera, eða hvaða línur væru á vellinum. „Ef við gerum flott mót hér heima gæti það haft áhrif á aðra úti í heimi,“ segir hann.

Fairwell Return to the Higlands from Karolina Fund on Vimeo.

Flygildi hafa notið talsverðra vinsælda hér á landi undanfarið.
Flygildi hafa notið talsverðra vinsælda hér á landi undanfarið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert