Guðmundur Steingrímsson hættir sem formaður Bjartrar framtíðar

Guðmundur Steingrímsson hættir sem formaður Bjartrar framtíðar á ársfundi flokksins …
Guðmundur Steingrímsson hættir sem formaður Bjartrar framtíðar á ársfundi flokksins þann 5. september næstkomandi. mbl.is/Kristinn

Guðmundur Steingrímsson hættir sem formaður Bjartar framtíðar á ársfundi flokksins sem haldinn verður þann 5. september næstkomandi. Róbert Marshall ætlar einnig að láta af embætti þingflokksformanns flokksins.

Guðmundur og Róbert greindu flokksmönnum Bjartrar framtíðar frá þessu á fundi á fimmtudaginn. Guðmundur segist í samtali við mbl.is telja þessa ákvörðun þeirra vera skynsamlega og rétta.

„Mig langar að sjá flokkinn þannig að hann snúist ekki bara um einstaklinga. Auðvitað eigum við að skiptast á að ganga í þessi forystuhlutverk,“ segir Guðmundur en hann hyggst leggja fram tillögu á ársfundinum um að það verði formlega í lögum félagsins að einstaklingar skiptist á að gegna forystuhlutverkum í flokknum.

Slæmt gengi flokksins hafði áhrif á þessa ákvörðun

Aðspurður hvort slæmt gengi flokksins í skoðanakönnunum hafi haft áhrif á þessa ákvörðun segir Guðmundur svo vera, að hluta til.

„Auðvitað er gengið slæmt og þegar þær raddir vakna gæti verið skynsamlegt að skipta um fólk í forystu. Mér finnst alveg sjálfsagt að gera það,“ segir Guðmundur en bætir við að þeir Róbert muni sitja áfram á þingi. „Ég er ekki að fara neitt, og Róbert ekki heldur.“

Guðmundur segir engin átök vera innan flokksins en „fólk verður auðvitað hundfúlt þegar fylgið fer svona niður og er lengi niður. Það hefur slæm áhrif á stemninguna,“ segir hann.

Það er mikil einföldun að segja að gengi Bjartrar framtíðar velti á einum manni, eða einu embætti að sögn Guðmundar og telur hann að ákvörðun hans um að stíga til hliðar verði til þess að leysa úr læðingi kraft innan flokksins og að fleiri axli ábyrgð á slæmu gengi flokksins.

„Ég hef trú á okkar hugsjónum og þeim brýnu stefnumálum sem við tölum fyrir. Á tímum þar sem uppgangur er í einangrunarhyggju og þjóðernispopúlisma er mjög mikilvægt að Björt framtíð sé til,“ segir Guðmundur.

Guðmundur kaus að tjá sig ekki um hver væri líklegur eftirmaður hans í embætti, og segir ákvörðunina vera í höndum flokksmanna Bjartrar framtíðar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, sem greindi fyrst frá því að Guðmundur ætlaði að láta af formannsembættinu, hefur Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, verið nefnd sem mögulegur eftirmaður Guðmundar.

„Ég myndi segja að það væri skynsamlegt að annar formaðurinn sæti á þingi, en flokksmenn ráða þessu bara. Það er fullt af frambærilegu fólki í Bjartri framtíð,“ segir hann.

Róbert Marshall lætur af embætti þingflokksformanns Bjartrar framtíðar á ársfundi …
Róbert Marshall lætur af embætti þingflokksformanns Bjartrar framtíðar á ársfundi Bjartrar framtíðar. mbl.is/Ernir
mbl.is

Bloggað um fréttina