Röndin á leið út í lónið

Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón, 10. október 2014. Esjufjallarönd, svarta röndin sem …
Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón, 10. október 2014. Esjufjallarönd, svarta röndin sem liggur niður jökulinn miðjan, á upptök frá Skálabjörgum, Esjubjörgum og Austurbjörgum í Esjufjöllum. mynd/Snævarr Guðmundsson

Hratt hop Breiðamerkurjökuls veldur því að Esjufjallarönd og jökullinn vestan við hana hliðrast nú til austurs. Miðað við áframhaldandi sambærilegt niðurbrot jökulsins stefnir röndin út í Jökulsárlón á næstu þremur til fimm árum, að sögn Snævars Guðmundssonar, sviðsstjóra hjá Náttúrustofu Suðausturlands.

Esjufjallarönd er urðarrani sem myndast úr efni úr Esjufjöllum sem jökullinn rýfur þegar hann strýkst við hlíðar þeirra. Hún liggur niður allan jökulinn og aðskilur Esjufjallajökul, miðarm Breiðamerkurjökuls, og Norðlingalægðarjökul sem skríður fram í Jökulsárlón.

Norðlingalægðarjökull liggur í nokkurs konar rennu sem nær 200-300 metra niður fyrir sjávarmál en jökullinn vestan við hana stendur nokkuð flatt. Snævarr segir að nú liggi Esjufjallarönd í raun yfir hliðinni á rennunni sem Norðlingalægðarjökull liggur í og Jökulsárlón er hluti af. Neðsti hluti randarinnar sé landfastur og því hlykkist hún til austurs.

Líkan af botni Breiðamerkurjökuls. Rauða brotalínan sýnir hvernig Esjufjallarönd lá …
Líkan af botni Breiðamerkurjökuls. Rauða brotalínan sýnir hvernig Esjufjallarönd lá árið 2004.

„Þynningin á þessu svæði og þessi kelfing sem kölluð er, þegar jakar brotna af jöklum út í lón, er farin að valda því að jökulyfirborðið hefur lækkað svo gríðarlega að jökullinn fer að draga til sín ísinn frá umhverfinu. Vegna þess að jökullinn er að lækka svo þar sem lónið er, þá leitar jökullinn við hliðina sem stendur hærra í áttina að lægðinni,“ segir Snævarr.

Því hnígur stærri hluti Breiðamerkurjökuls og Esjufjallarönd nú í áttina að Jökulsárlóni. Samanburður á gervihnattamyndum og leysimælingum á jöklinum benda til þess að Esjufjallarönd hafi verið farin að sveigjast örlítið á átta kílómetra kafla ofan við sporðinn í kringum árið 2006. Hliðrunin hafi verið að meðaltali um fimm metrar efst á röndinni en 30-40 metrar þar sem hún hefur gengið hraðast fyrir sig. Sveigjan varð þó fyrst áberandi eftir 2012.

Hopar af völdum loftslagsbreytinga

Þessar breytingar eru afleiðing af hröðu hopi jökulsins sem tilkomið er vegna loftslagsbreytinga eiga sér nú stað á jörðinni. Snævarr segir að þetta sé einn vitnisburður þeirra.

„Það vita allir að jökullinn er að hopa en hvernig hann hopar og hvaða afleiðingar það hefur fyrir jökulheildina er þessi. Þetta er náttúrufyrirbrigði sem er að gerast núna og á næstu árum sem er mjög spennandi að fylgjast með,“ segir Snævarr.

Á síðustu fimm árum hafa um 700-1.000 metrar af ís brotnað af jöklinum næst Esjufjallarönd. Þegar horft er til framtíðar segir Snævarr að líklegt séð að röndin verði farin að brotna út í Jökulsárlón eftir nokkur ár.

„Ef við gefum okkur það að sambærilegt niðurbrot haldi áfram þá gæti þetta verið á næstu þremur til fimm árum sem röndin verður byrjuð að stefna út í lónið. Fremsti hlutinn af þessari urð mun síðan bráðna á einhverjum áratugum og skilja eftir sig hrúgöld,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert