Þurfti að ritskoða kommentin í spilið

Óli Gneisti Sóleyjarson þjóðfræðingur hefur hannað Kommentakerfið, nýtt íslenskt borðspil.
Óli Gneisti Sóleyjarson þjóðfræðingur hefur hannað Kommentakerfið, nýtt íslenskt borðspil. mbl.is/Styrmir Kári

Það var meðal annars fréttaflutningur á Útvarpi sögu sem fékk mig til að fara af stað með spilið. Það má eiginlega segja að ef ég hefði gefið spilið út fyrir 20 árum gæti það heitið Þjóðarsálin,“ segir Óli Gneisti Sóleyjarson þjóðfræðingur um Kommentakerfið, nýtt íslenskt borðspil sem hann er höfundur að. Hægt er að prufa frumgerðina af spilinu í búðunum Spilavinir og Nexus. Spilið verður fjármagnað í gegnum Karolinafund og ef markmiðið næst þá gefst almenningi kostur á að kaupa eintak fyrir jólin.

Eins og nafnið gefur til kynna þá snýst spilið um að búa til kommentakerfi eða athugasemdakerfi á netmiðli. Hver spilari fær 10 „komment“ á hendi. Í hverri umferð er einn ritstjóri sem leggur út fyrirsögn. Hinir spilararnir leggja síðan „komment“ í púkkið. Ritstjórinn velur kommentið sem honum þótti skemmtilegast í samhenginu og spilarinn sem lagði það út fær stig.

Þegar textinn er settur í nýtt samhengi þá verður útkoman hlægileg og afkáraleg, jafnvel eðlilegustu athugasemdirnar geta orðið stórfyndnar.

Raunverulegar athugasemdir

Athugasemdirnar eða kommentin eru langflest byggð á raunverulegum athugasemdum þar sem greinamerkjasetning, innsláttar- og málfarsvillur fá að halda sér.

„Fólk sleppir því oft að lesa fyrirsagnir og kemur svo með persónulega skoðun á efninu í kommentakerfin, en þar getur fólk rifist um allt,“ segir Óli Gneisti og vísar sérstaklega til þeirra sem eru einstaklega virkir í athugasemdum.

Þeir sem skoða ummæli á netmiðlum vita að þau geta oft verið vægast sagt hatursfull. Ritskoðun var því óhjákvæmileg. „Ég er ekki með þessi ógeðslegu komment, t.d. þau sem lýsa hrikalegri kvenfyrirlitningu,“ segir hann.

Óli Gneisti segir að vissulega þá hugsi þátttakendur í spilinu: „Að hugsa sér að það sé til fólk sem situr heima hjá sér og skrifar þetta.“ Hann telur þó ólíklegt að þeir sem kannast við ummæli sín muni bregðast illa við. „Þetta er góð leið til að fá fólk til að hugsa aðeins hvað það lætur út úr sér á netmiðlum og sumir hafa bara gott af því. En ég held að sumir líti á kommentin sem einhvern leik þar sem það fer í annan karakter og lætur þá allt flakka. Það eru oft hlutir sem fólk segir kannski í litlum hópi góðra vina á kaffistofunni í vinnunni sem rata þarna inn.“

Spilið getur því einnig nýst vel þegar verið er að ræða við börn og unglinga um netið og hvernig æskileg hegðun er þar inni.

Forfallinn borðspilari

Spilið er undir áhrifum borðspils sem nefnist á ensku, Card Against Humanity eða Spil á móti mannkyninu, sem ku víst vera bráðfyndið. Óli Gneisti gerði heiðarlega tilraun til að þýða spilið yfir á íslensku en spilið byggir á orðaleik og eyðufyllingu. „Ég sá að fullt af tilvísunum fóru fram hjá fólki þó það væri gott í ensku. Fljótlega sá ég að íslenskan hentar ekki vel í þetta spilform með öll sín föll og tíðir,“ segir Óli Gneisti.

Hann hófst því handa við að búa til nýtt spil sem hann byrjaði á að prenta út á heimilsprentarann.

„Það er gamall draumur að gefa út spil,“ segir hann. Kommentakerfið er ekki fyrsta hugmyndin að spili sem hann hefur fengið. „Ég hef fengið fullt af hugmyndum að spilum en margar þeirra hafa ekki verið nógu góðar en ein varð næstum því að veruleika. Hver veit nema rykið verði dustað af henni á ný.“

Söfnun fyrir verkefninu er hafin á Karolinafund. Stefnt er að því að ná að lágmarki fimm þúsund evrum, eða ríflega 700 þúsund krónum, til að standa straum að prentkostnaði. Óli Gneisti er vongóður um að ná markmiðinu.

Hægt er að styrkja verkefnið á vefsíðu Karoliafund og fylgjast með á facebook undir kommentakerfið.
Það var meðal annars fréttaflutningur á Útvarpi sögu sem fékk …
Það var meðal annars fréttaflutningur á Útvarpi sögu sem fékk mig til að fara af stað með spilið. Það má eiginlega segja að ef ég hefði gefið spilið út fyrir 20 árum gæti það heitið Þjóðarsálin,“ segir Óli Gneisti Sóleyjarson þjóð- fræðingur um Kommentakerfið, nýtt íslenskt borðspil sem hann er höfundur að. mbl.is/Styrmir Kári
Spilið byggir á athugasemdum á kommentakerfum á hinum ýmsu netmiðlum. …
Spilið byggir á athugasemdum á kommentakerfum á hinum ýmsu netmiðlum. Í spilinu eru athugasemdirnar settar í nýtt samhengi sem kitla oftar en ekki hláturtaugarnar. mbl.is/Styrmir Kári
Kommentakerfið er nýtt íslenskt borðspil eftir Óla Gneista Sóleyjarson.
Kommentakerfið er nýtt íslenskt borðspil eftir Óla Gneista Sóleyjarson. Styrmir Kári
Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »