Rannsaka á annan tug mansalsmála

mbl.is/Ómar

Á annan tug mansalsmála hefur verið í rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá því í apríl sl.

Málin teygja sig til allra heimsálfa og tengjast ýmist kynlífsþrælkun, nauðungarvinnu eða málamyndahjónaböndum. Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir þetta í samtali í Morgunblaðinu í dag.

Alda fullyrðir að konur og ungmenni hafi verið flutt til landsins frá Austur-Evrópu, Kína og Nígeríu.

 Deseret News, fjölmiðill í Utah í Bandaríkjunum, hefur eftir Öldu að konur og börn séu flutt til landsins frá Austur-Evrópu, Kína og Nígeríu og að aukinn ferðamannastraumur hafi leitt til vaxtar í kynlífsferðamennsku og vændi á Íslandi.

Spurð um aukna kynlífsferðamennsku segir Alda að Ísland sé ekki eyland úti í heimi þar sem ekkert gerist. „Ísland er hluti af heiminum og það sem er að gerast í heiminum er líka að gerast á Íslandi. Það er alltaf þannig. Þar sem er aukin ferðamennska fylgir aukinn kynlífstúrismi,“ segir Alda.

Alda segir að engin tölfræði liggi fyrir um hversu algengt mansal sé. Þó sé um aukningu að ræða.

„Við erum að fá tilkynningar um vændi. Það er t.d. stundað vændi á hótelum og í airbnb-íbúðum,“ segir Alda og bætir við að vitað sé um dæmi um að erlendir ferðamenn komi til landsins til að taka þátt í kynlífsferðamennsku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert