Snerist aldrei um að verða formaður

Heiða Kristín Helgadóttir.
Heiða Kristín Helgadóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Heiða Kristín Helgadóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, hefur sagst treysta sér fullkomlega til þess að bjóða sig fram til formennsku í flokknum. Hún hefur hinsvegar tekið ákvörðun um að gera það ekki.

Það vakti nokkra athygli fyrr í mánuðinum þegar að Heiða gagnrýndi forystu Bjartrar framtíðar. Flokkurinn hef­ur að und­an­förnu tapað miklu fylgi í skoðana­könn­un­um og gagn­rýndi Heiða flokks­for­yst­una harðlega og sagði að gera þyrfti eitt­hvað í mál­inu. Hún sagðist þá jafnframt efast um að hún myndi taka sæti Bjartar Ólafsdóttur á þingi í vetur. Það breyttist þó þegar Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, greindi frá því að hann myndi ekki bjóða sig fram á ný í for­mann­sembættið. Þá staðfesti Heiða að hún myndi taka þingsæti Bjartar í haust en í morgun greindi Heiða frá því á Facebook og Twitter að hún myndi ekki bjóða sig fram til formanns. 

Flokkurinn vaknaði til lífsins

„Ég hef verið að velta þessu fyrir mér og það að verða formaður var ekki það sem ég lagði upp með þegar ég ákvað að hafa orð á hvað mér fannst um stöðuna í flokknum. Svo hefur þetta þróast í einhverja átt. Þegar ég hef verið spurð hef ég sagst treysta mér til þess að vera formaður, ég var formaður í þessum flokki í ákveðinn langan tíma,“ segir Heiða í samtali við mbl.is.

„Ég treysti mér fullkomlega til að gera þetta en það að verða formaður hefur ekki verið aðalatriðið fyrir mér. Það er heldur ekki það sem þetta hefur snúist um heldur meira að finna fyrir því að flokkurinn vaknaði aðeins til lífsins.“

Aðspurð hvort að ummæli hennar fyrr í mánuðinum hafi mögulega verið ákveðið spark í rassinn fyrir forystu Bjartrar framtíðar segir Heiða það ekki útilokað. „Já þetta var kannski hugsað þannig. Ég finn fyrir því að þetta hefur haft áhrif og ég er ánægð með það.“

Mun halda borgarsjónarmiðum á lofti

Eins og áður hefur komið fram mun Heiða taka þingsæti Bjartar Ólafsdóttur í haust en Björt fer í fæðingarorlof í haust. Heiða segist spennt fyrir komandi vetri á þingi og ætlar hún að halda borgarsjónarmiðum á lofti í þingsal.

„Ég lít á það sem skyldu mína vegna þess að ég er þingmaður Reykvíkinga. Það þýðir samt ekki að ég muni loka eyrunum fyrir öllum öðrum í landinu.“ Heiðu finnst oft lítið talað um höfuðborgina og höfuðborgarsvæðið á þingi og mikilvægi þess.„ Það er mjög mikilvægt að halda því á lofti,“ segir hún og bendir á að ræða þurfi samgöngur, byggðarþróun og skipulagsmál höfuðborgarinnar á þingi. „Þetta eru mjög stórir hlutir sem þarf að ræða. Málefni utangarðsfólks eru mér einnig mjög hjartfólgin og ýmis velferðarmál sem verða oft til í borgum þar sem meira af fólki er samankomið. Til dæmis finnst mér skipta mjög miklu máli hvernig við tökum á móti innflytjendum. Það er eitthvað sem ég held að sé mikilvægt fyrir landið allt, ekki síst höfuðborgarsvæðið.“

Fyrri fréttir mbl.is:

Heiða Kristín býður sig ekki fram

Nauðsynleg hreinsun átti sér stað

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert