Fleiri á móti í sex ár

Fleiri hafa verið andvígir inngöngu Íslands í Evrópusambandið en hlynntir samkvæmt niðurstöðum allra skoðanakannana sem birtar hafa verið hér á landi undanfarin sex ár óháð því hvaða fyrirtæki hefur framkvæmt kannanirnar.

Síðasta skoðanakönnun um afstöðu landsmanna til inngöngu í Evrópusambandið var birt um miðjan þennan mánuð. Könnunin var gerð af Gallup dagana 16.-27. júlí og reyndust 50,1% andvíg inngöngu í sambandið en 34,2% henni hlynnt. Ef aðeins er miðað við þá sem tóku afstöðu með eða á móti var staðan 59,4% andvíg en 40,6% hlynnt.

Fyrst eftir fall viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 mældist meirihluti fyrir því að gengið yrði í Evrópusambandið samkvæmt skoðanakönnunum. Stuðningurinn fór hins vegar minnkandi þegar leið að áramótum og í byrjun árs 2009 voru fylkingar þeirra sem studdu inngöngu í sambandið og lögðust gegn henni orðnar nær hnífjafnar. Þannig var raunin einnig um vorið sama ár.

Munurinn á fylkingunum aukist á þessu ári

Staðan breyttist síðan enn frekar um sumarið þegar rætt var á Alþingi um fyrirhugaða umsókn um inngöngu í Evrópusambandið. Þannig voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar Gallup í byrjun ágúst 2009 sem gerð var 16. - 27. júlí og sýndi 48,5% andvíg inngöngu í sambandið en 34,7% henni hlynnt. Sé aðeins miðað við þá sem tóku afstöðu með eða á móti voru 58,3% andvíg og 41,7% hlynnt.

Frá þeim tíma hafa niðurstöður allra skoðanakannana sem birtar hafa verið sýnt meirihluta gegn inngöngu í Evrópusambandið. Bilið á milli fylkingar hefur þó verið mismikið. Þegar það var hvað mest voru yfir 70% andvíg inngöngu í sambandið ef aðeins er miðað við þá sem tekið hafa afstöðu með eða á móti. Munurinn á fylkingunum minnkaði í kjölfar þess að málið var tekið af dagskrá af núverandi ríkisstjórn vorið 2013 en hefur á þessu ári aukist nokkuð á ný.

Fróðlegt er að bera þróun mála hér saman við Noreg en þar í landi hefur meirihluti verið gegn inngöngu í Evrópusambandið í öllum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið undanfarin áratug eða frá árinu 2005. Fyrir neðan má sjá línurit með helstu skoðanakönnunum sem birtar hafa verið frá því í ágúst 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert