„Þetta var bara klúður“

Maðurinn hefur áreitt og haft í hótunum við Ásdísi.
Maðurinn hefur áreitt og haft í hótunum við Ásdísi. mbl.is/Kristinn

Fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra segir að það hafi einfaldlega verið klúður sem leiddi til þess að krafa um nálgunarbann var vísað frá dómi vegna mistaka lögreglu. Hann segir að þetta hafi verið mistök sem lögreglan harmi. 

Um er að ræða mál Ásdísar Viðarsdóttur, sem Kastljós fjallaði um í gær, en fyrrverandi sambýlismaður hennar hefur hótað henni ítrekað, m.a. lífláti og barsmíðum.

Ásdís krafðist nálgunarbanns í júlí sl. en þar sem málið gleymdist var kröfunni vísað frá þegar lögreglan fór loks fram á nálgunarbann í síðasta mánuði. Héraðsdómur sagði að lögreglan hefði lagt fram kröfuna of seint. Hæstiréttur vísaði svo kröfunni um nálgunarbann aftur heim í hérað og þar fékkst loks nálgunarbann í þessari viku.

Eyþór Þorbergsson, fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, segir að mistökin hafi falist í því að lögreglumenn hafi ekki látið lögfræðinga vita af málinu. „Þetta var látið liggja á borðinu hjá mér á meðan ég var í fríi [í júlí],“ segir Eyþór í samtali við mbl.is. Hann tekur fram að aðrir fulltrúar hefðu getað gengið í málið en því miður hefði þetta orðið raunin.

„Þetta var bara klúður. Ég þekki ekkert annað orð yfir þetta,“ segir Eyþór. „Þetta eru mistök sem mér þykir leitt að hafi gerst.“

Í þriðja kafla laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sem fjallar um málsmeðferð hjá lögreglustjóra, segir að hraða skuli meðferð máls og taka ákvörðun svo fljótt sem auðið sé og eigi síðar en sólarhring eftir að beiðni hafi borist.

Eyþór bendir á að þetta sé of skammur tími og menn þurfi tíma til að rannsaka málið í kjölfarið, enda svona mál bæði flókin og tímafrek. Í tilviki Ásdísar hafi krafan verið lögð fram á Þórshöfn og þar sem tæknileg þekking hafi ekki verið til staðar til að yfirfara síma hennar og staðreyna hver hafi verið að senda Ásdísi skilaboðin. Því hafi þurft að flytja hann til Akureyrar. Þegar síminn kom þangað hafi verið liðinn meira en sólarhringur. Í framhaldinu var málið lagt á borð Eyþórs sem var í fríi.

Eyþór veltir því fyrir sér hvers vegna mál sem varða nálgunarbann þurfi að fara fyrir dómstóla. Hann bendir á að lögreglan geti með ákvörðun til dæmis lagt hald á háa fjármuni, en geti ekki brugðist við með sama hætti í svona málum. Það sé hins vegar ákvörðun sem löggjafinn verði að taka.

Úrskurðaður í nálgunarbann

Eyþór Þorbergsson, fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.
Eyþór Þorbergsson, fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. mbl.is/Skapti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert