Var ekki viss um að Fúsi næði í gegn

Dagur Kári Pétursson
Dagur Kári Pétursson Rax / Ragnar Axelsson

Óhætt er að segja að kvikmynd Dags Kára Péturssonar, Fúsi, hafi slegið í gegn hjá gagnrýnendum um allan heim síðan að hún var frumsýnd fyrr á þessu ári. Greint var frá því á mánudaginn að myndin hafi verið tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og í gær kom í ljós að Fúsi hafi verið valinn inn á kvikmyndahátíðina BFI London Film Festival í flokki ástarmynda.

Fúsi er ein af 238 myndum sem valdar voru inn á þessa virtu kvikmyndahátíð sem var fyrst haldin árið 1933. Dagur Kári segir það mikinn heiður að Fúsi taki þátt í hátíðinni. „Það er mjög eftirsótt að komast þarna inn. Þetta er hátíð sem sýnir rjómann af uppskeru ársins þannig það er mjög gott að vera valin,“ segir Dagur Kári í samtali við mbl.is. Dagur Kári hefur áður farið á BFI en kvikmynd hans Nói Albínói var valin til þátttöku á hátíðinni árið 2003.

Aðspurður hvort að velgengni Fúsa hafi komið honum á óvart svarar Dagur Kári því játandi. „Þetta hefur komið mér að mörgu leyti á óvart en auðvitað er þetta eitthvað sem maður vonast alltaf eftir. Þetta er lágstemmd en áhrifarík mynd og maður var ekki alveg viss hvort hún næði í gegn. En hún virðist hafa gert það um allan heim.“

Eins og áður hefur sagt frá hefur Fúsi unnið fjölmörg verðlaun um allan heim. Fúsi sló til dæmis gegn í kvikmyndahátíðum í Berlín og í Kaupmannahöfn og vann síðan þrjú stór verðlaun á Tribeca kvikmyndahátíðinni fyrir besta leikara, handrit og kvikmynd.

Túlkun Gunnars Jónssonar á titilpersónunni Fúsa hefur þar að auki vakið mikla athygli og lof. Hann hlaut til dæmis sérstök verðlaun á króatísku kvikmyndahátíðinni Motovun Film Festival fyrir leik sinn í myndinni. Dagur Kári segir það sérstaklega ánægjulegt hversu mikla lukku leikur Gunnars hefur vakið. „Mér þykir alveg sérstaklega vænt um það. Ég skrifaði myndina fyrir hann og mér finnst hans leikur alveg meistaralegur. Ég verð alveg ótrúlega ánægður þegar að fólk kemur auga á það.“

mbl.is