Mun ekki kafa í Silfru

Hin 13 ára Charlotte Burns mun hvetja til þess að …
Hin 13 ára Charlotte Burns mun hvetja til þess að íslenskum lögum um köfun verði breytt. Ljósmynd/Peter Burns

Hin 13 ára Charlotte Burns mun ekki verða yngsta manneskjan til að kafa í Silfru, eins og áætlað var. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Charlotte og fjölskyldu hennar.

Eins og mbl.is hafði greint frá stóð til að gera fræðsluefni um flekaskilin þar sem Charlotte yrði í aðalhlutverki en hún þykir mikið undrabarn á sviði köfunnar.

Í kjölfarið kom hinsvegar í ljós að hvorki Þingvallaþjóðgarður né Samgöngustofa könnuðust við að hafa gefið Burns undanþágu sem hún taldi sig hafa til að fá að kafa en 17 ára aldurstakmark er fyrir köfun á Íslandi.

„Charlotte er eðlilega eyðilögð yfir fréttunum en hún hafði hlakkað mikið til að kafa í fögru, náttúrulegu umhverfi Silfru svæðisins. Köfunin hafði verið í skipulagningu mánuðum saman og hafði Charlotte gengist undir stífar æfingar til að undirbúa sig,“ segir í tilkynningunni.

Segir einnig að farið hafi verið yfir mál Charlotte af innanríkisráðuneytinu og það staðfest að ekki væri unnt að veita henni undanþágu. Segir að íslensk yfirvöld hafi sýnt stöðu allra hlutaðeigandi aðila mikla samúð og að þó svo að ekki verði unnt að breyta lögunum í tæka tíð hafi yfirvöld tekið vel í að endurskoðu núgildandi lög um köfun á Íslandi.

„Köfunaraldur í flestum löndum miðast við tíu ár þrátt fyrir að köfunarskilyrði á Íslandi séu talin ólík þeim sem finnast annarsstaðar. Hafa íslensk yfirvöld boðið Charlotte að heimsækja Ísland við lok september til að halda kynningu á PADI þjálfun sinni, hæfni og köfunarreynslu fyrir opinbera starfsmenn. Þar mun Charlotte svara öllum spurningum sem þeir kunna að hafa í tengslum við mögulegar breytingar á núgildandi lögum um köfun.“

Segir í tilkynningunni að aldrei hafi verið ætlunin að brjóta gegn íslenskum lögum og að farið hafi verið löglega að í alla staði í góðri trú um að leyfi hafi fengist. Er dive.is þakkað fyrir að taka á sig fulla ábyrgð hvað þessar óheppilegu aðstæður varðar og íslenskum yfirvöldum einnig fyrir að gera það sem hægt var til að leysa málið.

Tilkynninguna í heild má lesa með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

Fréttir mbl.is

Brot álögum ef 13 ára kafar í Silfru 

Kannast ekki við undanþágu

„Þetta verður ótrúlegt afrek“

13 ára fær að kafa í Silfru

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert