Vill ekki nota peningana í partý

Guðmundur Steingrímsson ávarpar ársfund Bjartrar framtíðar í dag.
Guðmundur Steingrímsson ávarpar ársfund Bjartrar framtíðar í dag. Ljósmynd/Víkurfréttir / Hilmar Bragi

Í ræðu sinni á ársfundi Bjartrar framtíðar sagði Guðmundur Steingrímsson, fráfarandi formaður Bjartrar Framtíðar, að honum finnist ótrúlegt að fólk sem hafi atvinnu af því að tala um stjórnmál segi Bjarta framtíð ekki hafa neina stefnu.

„Þetta er fáránlegt og ótrúlegt bull, mig langar að tala um þetta aðeins því það er svo oft sagt að við séum bara hérna til að breyta klukkunni.“

Nauðsynlegt að líta til afreka flokksins

Sagði Guðmundur ennfremur nauðsynlegt að líta yfir afrek flokksins, að flokkurinn hefði náð besta árangri nýs stjórnmálaflokks í kosningum og fengið sex þingmenn kjörna. Að Björt framtíð hefði staðið fast á því að ekki ætti að ráðast í 100-200 milljarða skuldatilfærslur. Hann sagði einnig að störf flokksins í sveitastjórnum væru til fyrirmyndar, að flokkurinn hefði staðið fyrir metnaðarfyllsta og flottasta aðalskipulagi sem hefði sést í Reykjavík, að verið væri að útfæra lýðheilsustefnu í Kópavogi sem ekki hefði verið gert áður og að í Hafnarfirði væri verið að vinna að metnaðarfullri úttekt á fjármálum bæjarins. 

Jafnframt sagði hann að mælikvarði Bjartrar framtíðar væri sá hvort að stjórnmálaaðgerðir væru til þess fallnar að bæta framtíðina. Sagði hann flokkinn eiga mikið erindi og að þörf væri á stefnu Bjartrar framtíðar og vinnubrögð, sem hefðu langtímahagsmuni en ekki skammtímahagsmuni að leiðarljósi. 

Freisting að dæla fjármagni inn í hagkerfið

Guðmundur sagði að Björt framtíð myndi tala fyrir ábyrgð í ríkisrekstri á komandi misserum svo að þeir fjármunir sem munu koma inn í ríkissjóð vegna stöðugleikaskatts yrðu ekki nýttir til þess að halda eitt heljarinnar partý sem að endaði að lokum með hruni. Að stutt væri í kosningar og freistingin væri sú að dæla peningunum inn í hagkerfið en að Björt framtíð myndi tala fyrir því að farið yrði með fjármunina á ábyrgðarfullan hátt. 

Óttarr Proppé sjálfkjörinn

Á fundinum verður kosið um nýjan formann og stjórnarformann en aðeins eitt framboð hefur borist í formannsembættið en það barst frá Óttarri Proppé, þingmanni. Framboðsfrestur hefur runnið út svo að hann verður sjálfkjörinn í embættið. Fjögur framboð hafa borist í embætti stjórnarformanns flokksins. 

Ljósmynd/Víkurfréttir / Hilmar Bragi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert