Segir Ólaf Ragnar ætla að hætta

Ólafur Ragnar í ræðustóli á Alþingi í morgun.
Ólafur Ragnar í ræðustóli á Alþingi í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ætlar ekki að gefa kost á sér á ný þegar kjörtímabilinu lýkur næsta sumar. Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði, í samtali við mbl.is, aðspurður um orð forsetans í þingsetningarræðunni í morgun

Í ræðu sinni sagði Ólafur Ragnar orðrétt: „Þegar ég nú samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól mér að setja Alþingi í síðasta skipti flyt ég þinginu í senn djúpa virðingu mína og einlægar þakkir.“

Frétt mbl.is: Varar við breytingum á stjórnarskrá

Margir hafa velt orðum hans fyrir sér í dag og virðast þeir sem hafa tjáð sig ýmist vera á því að hann hafi sagt sitt síðasta eða að hann hafi með þessu átt vísað til þess að þetta sé í síðasta skipti á þessu kjörtímabili sem hann setur þingið að hausti.

Ólafur orðinn gamall maður

„Hann virðist alltaf geta sagt eitthvað sem við nánari skoðun getur verið hægt að túlka á fleiri en einn veg en við fyrstu sýn er hann greinilega að gefa til kynna að hann ætli að hætta. Mér finnst þetta vera nokkuð afdráttarlaus yfirlýsing,“ segir Grétar Þór.

Segir hann að jafnvel þó að forsetinn hafi sýnt það í gegnum tíðina að hann geti verið óútreiknanlegur hafi hann í þetta skipti gefið ákvörðun sína skýrt til kynna. „Ef hann hefði það bak við eyrað að halda áfram hefði hann beðið lengra með að segja svona hlut, jafnvel fram að áramótum. Hann er óvenju snemma í þessu núna,“ segir Grétar Þór.

Af hverju stígur hann til hliðar núna?

„Hann er búinn að vera tuttugu ár á næsta ári, hann verður orðinn 73 ára þegar kjörtímabilinu lýkur og hann er kominn á ellilífeyrisaldur ef út í það er farið. Og hann er auðvitað  gamall maður, það verður að segjast eins og er og kannski vill hann gera eitthvað annað við sitt líf þau ár sem framundan eru. Vera kannski frjálsari en hann er, það er auðvitað mannleg afstaða,“ segir Grétar Þór.

Ekki allir sem vilja berjast við hann

Grétar Þór segir að ef rétt reynist, að hann hafi ákveðið að gefa ekki kost á sér á ný, geti þetta breytt stöðunni töluvert.   „Ef að ég túlka þetta þannig, sem ég hallast nú að, þá er hann í raun og veru að skapa pláss fyrir önnur möguleg framboð til að þróast án þess að það sé gert á síðustu stundu.“

„Ég held að þetta gæti breytt stöðunni fyrir vænlega kandídata að vita af því að þeir eru ekki að fara að gefa kost á sér upp á það að lenda í slag við Ólaf. Það held ég að opni á fleiri möguleika, það er það sem breytir þessari stöðu. Það er örugglega eitthvað af fólki þarna úti sem gæti vel komið til greina sem kærir sig ekki um það að fara í kosningaslag við Ólaf Ragnar,“ segir Grétar Þór.

Frétt mbl.is: Hvað var Ólafur Ragnar að meina?

Hver mun taka við Bessastöðum á næsta ári?
Hver mun taka við Bessastöðum á næsta ári? mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert