Staðfesti nálgunarbannið

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í dag nálgunarbann yfir manni sem hefur ítrekað hótað Ásdísi Viðarsdóttur. Manninum, sem er fyrrverandi sambýlismaður Ásdísar, er skylt að sæta nálgunarbanni í sex mánuði. Vegna mistaka lögreglu var nálgunarbannskröfunni upphaflega vísað frá dómstóli.

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi manninn, Erlend Eysteinsson, í nálgunarbann og staðfesti Hæstiréttur það í dag. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að mistök lögreglu í málinu sem fólust í því að virða ekki tímafrest til að leggja kröfuna fram breyti engu um niðurstöðuna. Sú vanræksla geti ekki valdið því að brotaþoli fari á mis við þá vernd sem hann njóti samkvæmt lögum.

Kastljós fjallaði um mál Ásdísar á dögunum en þar kom fram að Erlendur hafi ítrekað sent henni lífslátshótanir í smáskilaboðum og hótað henni barsmíðum. Hann hefur áður verið dæmdur í nálgunarbann af þeim sökum og hlaut átta mánaða dóm fyrir brot á því og hótanir í fyrra.

Fyrri frétt mbl.is: Úrskurðaður í nálgunarbann

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert