Greiðir skatt af kyrrsettum eignum

Úr héraðsdómi. Skúli er til hægri á myndinni, en eignir …
Úr héraðsdómi. Skúli er til hægri á myndinni, en eignir hans og systur hans hafa verið kyrrsettar í fimm ár.

Frysting eigna hefur verið talsvert íþyngjandi og haft mikil áhrif. Þetta sagði Katrín Þorvaldsdóttir, systir Skúla Þorvaldssonar, eins hinna ákærðu í Marple-málinu, en eignir félaga Skúla voru kyrrsettar og farið fram á upptöku þeirra. Katrín hefur hins vegar aldrei verið boðuð í skýrslutöku eða fengið stöðu grunaðs manns í málinu og var kröfu um afléttingu á kyrrsetningu hennar hlut hafnað. Katrín var meðal vitna í málinu í dag, síðasta dag vitnaleiðsla.

Greiðir skatt af eignum sem hún hefur ekki aðgang að

Katrín og Skúli, auk systur þeirra, stofnuðu félagið Holt holding í Lúxemborg árið 1999, eftir að þau seldu fyrirtækið Síld og fisk. Seinna urðu þau tvö einu eigendur þess. Katrín segir að fjárhagsstaða félagsins um áramótin 2007-8 hafi verið um 60 milljónir evra, eða tæplegar 900 milljónir á gengi dagsins í dag. Við yfirheyrslur sagði hún að á þessum fimm árum sem eignarhluturinn hefur verið kyrrsettur hafi það haft gríðarleg áhrif á hana.

Sagðist hún hafa þurft að greiða auðlegðarskatt hér á landi vegna eignanna sem hún kæmist ekki í og þá hefðu félögin þessi ár verið rekin úr vasa þeirra systkina, án þess að hafa neinn aðgang að fjármununum til að standa undir rekstrinum. Sagði hún þetta óskiljalegt með öllu, enda væri um arð að ræða af fjármunum sem hefðu komið inn kringum síðustu aldarmót.

„Hafi það vantað er það ekki í samræmi við bókhaldslög“

Eins og fram hefur komið í umfjöllun mbl.is um málið þá snýst það að um greiðslur til félagsins Marple, sem Skúli átti, þótt deilt sé um það fyrir dómnum hvort hann hafi verið eigandi þess í raun. Um er að ræða tvær millifærslu, samtals að upphæð um sex milljarðar og skuldabréfaviðskipti sem skiluðu Marple um tveimur milljörðum. Millifærslurnar voru að sögn ákærðu gerðar vegna uppgjörs á afleiðuviðskiptum og svo gjaldmiðlaskiptasamningi. Samningar þar að lútandi hafa þó ekki fundist og er meðal annars deilt um hvort þeir hafi getað verið á skrifstofu forstjóra, en ekki hefur gengið að finna þá í tölvukerfum bankans.

Lilja Steinþórsdóttir, fyrrverandi innri endurskoðandi Kaupþings, bar vitni í dag og sagði hún að fylgiskjöl eigi að vera með færslum allra félaga. „Hafi það vantað er það ekki í samræmi við bókhaldslög,“ sagði hún og bætti við að númera hefði átt öll slík gögn, en ekkert númer er á staðfestingu á uppgjöri á samningunum.

Eggert Teitsson, fyrrum framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans á Íslandi, bar einnig vitni og sagði hann að afleiðusamningar hefðu átt að vera vistaðir í kerfum bankans. Hann tók þó fram að ekki hefði verið númer á öllum samningum, en í lang  flestum tilfellum.

Leitað í öllum kerfum bankans

Þrír starfsmenn frá slitabúi Kaupþings komu einnig fyrir dóminn og staðfestu að þeir hefðu leitað í tölvukerfum bankans að þeim gögnum sem sérstakur saksóknari hafði óskað upplýsinga um. Ekkert fannst hins vegar við þá leit, hvort sem um var að ræða afleiðukerfi bankans, fjárhagsbókhald eða annað. Verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrum forstjóra bankans, spurði starfsmennina hvort að aðeins hefði verið leitað í rafrænum skjölum og játuðu þeir því. Leiddi hann líkur að því að samningarnir hefðu getað verið í skjölum af skrifstofu Hreiðars, sem talsvert hefur verið rætt um í málinu. Enginn virðist hins vegar hafa athugað þau gögn sérstaklega, séu þau á annað borð til staðar.

Lögreglumenn spurðir í ummæli Jóns Óttars

Verjendur ákærðu kölluðu til tvo lögreglumenn og báru þeir vitni í dag. Spurði verjandi Skúla þá út í hvernig og hvaða skjöl rati með í skjöl málsins, en hann hefur ítrekað bent á að afrit af tölvupósti frá fyrrum framkvæmdastjóra útlána hjá Kaupþingi til samstarfsmanns síns, þar sem Skúli er ekki sagður tengjast Marple, hafi ekki ratað í skjöl málsins. Það var þótt sett í sér dómskjal og afhent verjendum fyrir um viku síðan og gagnrýndi verjandi Skúla það og vildi fá að vita hver ákvæði hvaða gögn færu með í málið og hver ekki.

Þá spurði hann einnig út í að þrátt fyrir ítrekaðar spurningar um hvort Skúli mætti mæta með lögmann til yfirheyrslu á sínum tíma, þá hafi alltaf komið svör um að það mætti ekki, enda væri hann vitni, en ekki sakborningur. Seinna hafi þó réttarstöðu hans verið breytt í sakborning. Taldi verjandinn þetta ekki góð vinnubrögð.

Saksóknari nýtti tækifærið og spurði lögreglumennina, sem báðir höfðu stýrt rannsóknum hjá sérstökum saksóknara, út í ummæli Jóns Óttars Ólafssonar, fyrrum starfsmanns embættisins í gær, en hann sagði starfsmenn meðal annars hafa óhikað hlustað á samtöl við verjendur. Sögðu þeir báðir að ekki væri hægt að vita fyrir fram hvort um verjanda væri að ræða eða ekki, en öllum starfsmönnum hefði verið brýnt fyrir rannsóknina að hætta að hlusta ef um væri að ræða samtal ákærðu við verjendur.

Á morgun hefst málflutningur saksóknara og verjenda í málinu. Gert er ráð fyrir að því ljúki á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert