Finna þurfti pláss fyrir Hönnu Birnu

Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfstæðisflokkurinn taldi skynsamlegast að færa Birgi Ármannsson, þingmann flokksins, úr utanríkismálanefnd í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar finna þurfti pláss fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í einni af nefndum Alþingis.

Hanna Birna tók sæti á Alþingi 27. apríl eftir að hafa tekið sér hlé frá störfum frá því að hún sagði af sér sem innanríkisráðherra í lok nóvember á síðasta ári.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti á mánudag að Hanna Birna tæki við af Birgi Ármannssyni sem formaður utanríkismálanefndar en hann hefur gegnt formannsstarfinu frá upphafi þessa kjörtímabils. Birgir verður aftur á móti fyrsti varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Hanna Birna þarf einhvern póst

„Ástæðan er einfaldlega sú að þegar fjölgar í þingmannahópnum sem skipa á í nefndir fer alltaf í gang ákveðin hringrás og breytingar. Þetta voru þær breytingar, í ljósi þess sem verður á þessum vetri, sem við töldum skynsamlegastar,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, aðspurð um ástæðu breytinganna í samtali við mbl.is.

Ragnheiður bendir á að Birgir hafi mikla reynslu í stjórnarskrármálum og sitji í nefnd fyrir hönd flokksins sem hefur þau mál til umfjöllunar. „Sú umræða öll, sem væntanlega verður ef slíkt frumvarp kemur fram, fer fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Okkur þótti við hæfi að hann héldi utan um þá vinnu áfram þar, þess vegna er hann færður,“ segir Ragnheiður.

„Þar að auki er Hanna Birna Kristjánsdóttir líka fyrsti þingmaður Reykvíkinga þannig að hún þarf einhvern póst, hvort sem það er þessi nefnd eða önnur. En þessi nefnd varð fyrir valinu í ljósi þess sem við horfum til á þessum vetri,“ bætir Ragnheiður við.

Segir Birgi hafa staðið sig með prýði

Sjálfstæðisflokkurinn hefur formennsku í allsherjar- og menntamálanefnd, í atvinnuveganefnd og utanríkismálanefnd.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki formennsku á fleiri nefndum þannig að þetta er það val sem verður ofan á þegar við förum í þessar breytingar sem var ljóst að þyrfti að fara í því þú situr ekki með þingmann ekki sitjandi í neinni nefnd,“ segir Ragnheiður.

„Birgir Ármannsson hefur verið formaður nefndarinnar frá upphafi þessa kjörtímabils og sinnt því starfi að stakri prýði eins og öllum öðrum störfum sem hann sinnir fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fyrir land og þjóð,“ bætir Ragnheiður við. 

Taldi ekki ástæðu til að breyta afstöðu Íslands

Nokkuð hefur mætt á utanríkismálanefnd að utanförnu, sér í lagi eftir að ákvörðun rússneskra stjórnvalda um að setja innflutningbann á íslenska matvöru lá fyrir. Í kjölfar ákvörðunarinnar sagði Birgir stöðuna alvarlega, snúna og að um mikla hagsmuni fyrir Íslands sé að ræða.

Birgir sagði einnig að hann teldi ekki tilefni til að Ísland dragi stuðning sinn við viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi til baka.

Frétt mbl.is: Breyta ekki afstöðu Íslands

Frétt mbl.is: Um mikla hagsmuni að ræða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert