Kaupþing mótmæli upptöku eigna Skúla

Friðrik Árni Friðriksson Hirst, lögmaður slitabús Kaupþings.
Friðrik Árni Friðriksson Hirst, lögmaður slitabús Kaupþings. Eggert Jóhannesson

Lögmaður slitabús Kaupþings, Friðrik Árni Friðriksson Hirst, óskaði eftir að bóka sérstök mótmæli við upptökukröfu sérstaks saksóknara gegn félaginu Marple, en Kaupþing er meintur brotaþoli í málinu. Þessi sérstaka aðstaða kom upp þar sem upptökukröfur ganga sjálfkrafa til ríkissjóðs og núna er Marple í gjaldþrotameðferð og Kaupþing er eini kröfuhafinn. Fari fjármunirnir því eitthvað annað en til Kaupþings, gæti það rýrt verðmæti félagsins.

Tekur undir aðrar kröfur saksóknara

Við málflutning í Marple-málinu svokallaða, sagði Friðrik að Kaupþing tæki að öðru leyti undir málflutning saksóknara og kröfu um sakfellingu í málinu. Sagði hann að bótakrafa Kaupþings kæmi til vegna þeirra atriða sem ákært er fyrir, en um að ræða millifærslur og viðskipti með skuldabréf Kaupþings sem ákæruvaldið telur að hafi í raun verið fjárdráttur og umboðssvik.

Tók hann fram að engu breytti um fjártjón hvernig Marple hafi ráðstafað fjármununum, en í máli saksóknara hefur komið fram að þeir hafi verið millifærðir á fleiri félög sem tengdust Skúla Þorvaldssyni, sem er einn hinna ákærðu í málinu.

Kaupþing eini kröfuhafi þrotabús Marple

Friðrik upplýsti í dag að Kaupþing væri eini kröfuhafi slitabús Marple, en lýstar kröfur á búið nema 34 milljörðum króna. „Væri fallist á upptöku fjármuna á hendur Marple myndi það skerða hagsmuni Kaupþings,“ sagði hann og bætti við að það væri mat kröfuhafa að vegna þessarar sérstöku stöðu sé farið fram á við dómara að hafna upptöku Marple, enda sé í lögum talað um að verja þurfi hagsmuni brotaþola.

Upptækir fjármunir fara sjálfkrafa í ríkissjóð

Fallist dómari á kröfu ákæruvaldsins að gera upptæka þá fjármuni sem hafa verið frystir, þá renna þeir sjálfkrafa í ríkissjóð. Í framhaldinu gæti svo Kaupþing óskað eftir þeim fjármunum, en það myndi flækja málið talsvert. Friðrik tók þó fram að slitabúið tæki undir aðrar kröfur á hendur félögum Skúla, enda sé Kaupþing ekki kröfuhafi að þeim.

Þá skaut Friðrik því einnig að dómara að hugmynd með upptöku fjármuna þegar um sé að ræða brotaþola sé ekki að fjármagna rekstur opinbers embættis, eins og sérstaks saksóknara, sem hefur rannsakað og flutt málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert