Skoðaði mannvirki á öryggissvæðinu

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Robert O. Work aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Robert O. Work aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Meðal þess sem Robert O. Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, gerði í heimsókn til Íslands á dögunum var að skoða öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli sem áður var herstöð Bandaríkjahers þar til hann yfirgaf landið árið 2006.

Fram kemur á fréttavefnum Defensenews.com að Work hafi meðal annars skoðað mannvirki á öryggissvæðinu og þar á meðal flugskýli sem voru reist af Bandaríkjamönnum á sínum tíma. Ennfremur segir að bandarískar herflugvélar nýti sér aðstöðuna annað slagið. Til að mynda nýverið þegar tvær F-16 orrustuþotur lentu á flugvellinum á leið sinni yfir Atlantshafið vegna vélarbilunar. Þá hafi P-8 eftirlitsflugvél lent á vellinum í Apríl á þessu ári.

„Flugskýlið sem var reist fyrir P-3 eftirlitsflugvélar er enn þarna,“ er haft eftir Work áður en hann kom til Íslands. Þar vísar hann til P-3 Orion flugvéla sem Bandaríkjaher rak hér á landi á tímum kalda stríðsins og eftir að því lauk. „Ég vil sjá það, vera viss um að við getum tekið það aftur í notkun.“ Ennfremur er hafy eftir Work að eina breytingu þurfi þó að gera. Stækka yrði dyrnar að flugskýlinu þar sem stélið á P-8 flugvélunum væri hærra en P-3 vélunum.

Rætt er einnig við Jón Guðnason, yfirmann Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, sem segir að mannvirkjunum hafi verið haldið við frá því að bandaríski herinn yfirgaf landið. Nóg húsrými sé á svæðinu og landssvæði fyrir ný mannvirki. Þegar séu fyrir hendi herskálar, stjórnstöðvar, eldsneytistankar, vopnageymslur og um 21 loftvarnabyrgi fyrir flugvélar. Þá sé búnaður fyrir hendi til þess að orrustuþotur geti lent á flugvellinum. Vilji sé til að sjá mannvirkin nýtt meira.

Haft er eftir Work að Atlantshafsbandalagið (NATO) standi frammi fyrir þremur vandamálum í dag. Hernaðarógnin vegna Rússa og átökin í Úrkaínu í Norður-Evrópu, hættan af hryðjuverkamönnum og flóttamannavandinn vegna ástandsins í Miðausturlöndum. Hans verkefni væri staða mála í Norður-Evrópu. Segir hann ljóst að bæði Ísland og Noregur hafi áhyggjur af framgöngu Rússa og sækist eftir auknu samstarfi við Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert