Fóru öll fram á sýknu í Marple-máli

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings. Árni Sæberg

Allir ákærðu í Marple-málinu hafa farið fram á sýknu í málinu, en embætti sérstaks saksóknara ákærði fyrir fjárdrátt, umboðssvik, peningaþvætti og hylmingu. Talsverður munur er á grundvallaratriðum í málflutningi Arnþrúðar Þórarinsdóttur, saksóknara og verjenda í málinu. Meðal annars hver sé eigandi félagsins sem málið er kennt við og hvort samningar sem tveir þriðju hlutar málsins eru byggðir á hafi yfir höfuð verið gerðir eða ekki.

Aðalmeðferðin tók eina viku

Aðalmeðferð málsins hefur staðið yfir síðan á mánudag og kláraðist vitnaleiðsla á miðvikudaginn. Í dag og í gær hafa verjendur og saksóknari farið yfir málflutning sinn og gert grein fyrir málsatvikum og lýst yfir ástæðu sektar eða sakleysis eftir því sem við á.

Í málinu eru þau Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri í Kaupþingi og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri bankans, ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg er aftur á móti ákærður fyrir hlutdeild í sömu brotum og fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson ákærður fyrir hylmingu og peningaþvott.

Ákæruefnið er í mjög stuttu máli tvær millifærslur frá Kaupþingi til Kaupþings í Lúxemborg sem fóru áfram til félagsins Marple í Lúxemborg á árunum 2007-8, þar sem saksóknari telur að um fjárdrátt sé að ræða. Heildarupphæð þeirra er rúmlega 6 milljarðar. Þá segir saksóknari að viðskipti með skuldabréf í Kaupþingi hafi skilað Marple ólöglega um 2 milljörðum og ákærir þar fyrir umboðssvik.

Tvö stór ágreiningsatriðið í málinu

Eins og fyrr segir er meðal annars deilt um eignarhald Marple félagsins, en saksóknari segir Skúla eiga félagið og með því hafi orðið til ávinningur þriðja aðila með viðskiptunum, en verjendur hafa sagt að félagið ekkert bendi til að Skúli sé eigandi þess, jafnvel þótt hann hafi sjálfur talið svo vera á sínum tíma og aðrir ákærðu í málinu. Sé Skúli ekki eigandi félagsins, heldur Kaupþing er um að ræða fjármunafærslu milli dótturfélags og móðurfélags og segja verjendur að þá sé málið í raun fallið um sjálft sig.

Annað atriði sem deilt hefur verið mikið um og má með sanni segja að sé stórt atriði í málinu eru samningar sem eiga að hafa verið gerðir í tengslum við millifærslurnar tvær sem voru gerðar. Ákærðu segja að samningar hafi verið gerðir vegna framvirkra gjaldmiðlaskiptasamninga og afleiðuviðskipta sem hafi orsakað þessar greiðslur, en saksóknari segir að samningarnir hafi ekki fundist og að gögn sem tengist þeim og hafa komið í ljós beri með sér að þau hafi verið gerð eftir að málið var frágengið. Þessu neita ákærðu og hafa meðal annars Guðný og Hreiðar vitnað um að samningurinn hafi verið gerður.

Kröfðust öll sýknu í málinu

Verjendur félaganna og Skúla hafa einnig gert athugasemdir við meint tengsl Skúla við málið og í framhaldi af því upptökubeiðni saksóknara og lögmanns slitabús Kaupþings á fjármunum félaganna. Meðal annars hafa verjendur bent á að þeir fjármunir sem hafa verið kyrrsettir hafi að miklu leyti komið til vegna allt annarra viðskipta en ákært er fyrir í málinu og að fjármunir hafi í reynd ekki runnið frá Marple til þeirra, eins og saksóknari hefur sagt.

Eins og fyrr segir kröfðust öll ákærðu sýknu í málinu. Saksóknari fór aftur á móti fram á að ákærðu verði gerð refsing og vísaði meðal annars til ákvæðis í 72. greinar al­mennra hegn­ing­ar­laga um aukna refs­ingu, en þar segir að hafi maður lagt í vana sinn að fremja brot eða geri það í atvinnuskyni megi bæta helmingi við refsinguna. Þá vísaði Arnþrúður til þess að brotin væru stærri, í fjármunum talið, en önnur umboðssvikabrot sem hefði verið dæmt í hér á landi og vísaði sérstaklega til dóms þar sem dæmt hafði verið 4,5 árs fangelsi fyrir 1,5 milljarða umboðssvik. Verjendur ákærðu bentu á móti á að í því máli hefði verið horft til þess að viðkomandi ætti hagsmuna að gæta sjálfur í málinu. Ekkert slíkt hefði komið fram í þessu máli.

Bæði Guðný Arna og Skúli sátu mest öll réttarhöldin, en Hreiðar Már og Magnús Guðmundsson voru einungis fyrri hlutann, eða þangað til þeir höfðu báðir vitnað í málinu.

Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg.
Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg. Árni Sæberg
Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri bankans.
Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri bankans. Árni Sæberg
Skúli Þorvaldsson, fjárfestir.
Skúli Þorvaldsson, fjárfestir. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert