Boðar atkvæðagreiðslu um verkfall

Fullt var út úr dyrum á sameiginlegum baráttufundi SFR, Landssambands lögreglumanna og Sjúkraliðafélagi Íslands sem haldinn var í Háskólabíói en tæplega 590 manns höfðu boðað komu sína á Facebook síðu fundarins. Ásamt ræðum frá formönnum hvers félags voru tónlistaratriði frá Ragnheiði Gröndal og Jónasi Sig og ritvélum framtíðarinnar. Mikill samhugur var meðal fundarmanna og baráttuandi einkenndi fundinn. 

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, rakti í ræðu sinni sögu kjarabaráttu lögreglumanna. Í máli sínu fór Snorri yfir þann tíma þegar lögreglumenn misstu verkfallsréttinn og ljóst að þeir sjá mikið eftir honum. Hann sagði að árið 2011 hefði þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, lofað því að verkfallsrétturinn yrði veittur lögreglumönnum á ný en að ekki hafi orðið af því.

Samstaða það eina sem skilar árangri

Snorri gagnrýndi jafnframt forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar og sagði ótækt að stjórnvöld leggðu áherslu á frjálsa sölu áfengis og „að forstöðumenn geti rekið embættismanninn sem er sífellt að benda á það sem betur má fara,“ þegar brýnni mál eins kjör heilla starfsstétta stæðu óleyst. Snorri sagði að lokum að samstaða væri það eina sem skilaði árangri. „Kæru félagar samstaða er það eina sem dugar til að ná árangri, samstaða er það eina það sem getur brotið á bak óréttlætið...kæru félagar sínum samstöðu, sínum samtakamátt og stöndum saman öll sem eitt.“

Undir lagi Jónasar Sig og ritvéla framtíðarinnar, Allt er eitthvað, sem að Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, vitnaði eftirminnilega í á þingi, hljómaði dynjandi lófatak fundargesta. Hugur fundarmanna virtist eiga góða samleið með texta lagsins en í honum segir m.a.: 

„Við remb­umst við að lána pen­ing, fyr­ir aðra, til að keyra áfram neysl­una. Og til að kaupa nýja hluti, fyr­ir aðra til ýta und­ir þensl­una. Svo þessi enda­lausa vinna, fyr­ir aðra, til að borga fyr­ir veisl­una.“

Ef það er verkfall sem þarf til þá verður verkfall

„Sjaldan eða aldrei hefur ósvífnin staðið eins nakin frammi fyrir okkur og nú,“ sagði Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, í ræðu sinni. Hann sagði að krafa samninganefndar ríkisins væri að hækkanir félagsmanna yrðu töluvert minni heldur en í öðrum stéttum sem starfa hjá ríkinu. „Nú segir ríkið, þið ræflarnir eigið ekki að fá það sama og hinir, þið eigið að fá minna,“ sagði Árni Stefán og bætti við: „Ef það er verkfall sem þarf til þá verður verkfall.“

Þá sagði hann dagsljóst að miðað við áður kannaðan hug félagsmanna og stemninguna á fundinum að sett yrði af stað atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun við dynjandi lófatak fundargesta.

Undir lok fundarins var einróma samþykkt ályktun um að fundurinn harmi umfjöllun ríkisins um opinbera starfsmenn. Að samningar um eitthvað minna en aðrir hafi fengið verði felldir og lýst var yfir fullum stuðningi við samninganefnd félaganna. Að starfsmenn ríkisins skuli fá sanngjarnar leiðréttingar og taka skuli mið af niðurstöðu gerðardóms í samningum.

Ályktunin í heild sinni:

Félagsmenn á baráttufundi fyrir bættum kjörum, í Háskólabíói 15. september 2015 kl. 17, krefjast þess að ríkisstjórn Íslands taki raunhæf skref í átt að lausn á kjaradeilu SFR, SLFÍ og LL við ríkið. Staðan er grafalvarleg. Ef ekkert verður að gert stefnir í að fleiri þúsund starfsmenn innan almannaþjónustunnar fari í aðgerðir með tilheyrandi áhrifum og álagi á samfélagið allt.

Félögin hafa lagt fram sanngjarnar, raunhæfar og skýrar kröfur. Þær byggja á þeim kjarasamningum sem ríkið hefur nú þegar gert við starfsmenn sína og niðurstöðum gerðardóms. Stjórnvöld hafa hins vegar sýnt félagsmönnum BSRB grímulaust virðingarleysi með því að bjóða þeim  miklu lakari kjarabætur. Félagsmenn SFR, SLFÍ og LL geta ekki með nokkru móti sætt sig við framkomu stjórnvalda og harma afstöðu þeirra og það virðingarleysi sem birtist í tilboði þeirra og ekki síður í umfjöllun stjórnvalda um ríkisstarfsmenn.

Fundurinn krefst þess að félagsmönnum SFR, SLFÍ og LL verði ekki mismunað með þessum hætti. Tilboð samninganefndar ríkisins er til þess gert að ýta undir aukna misskiptingu og breikka bilið á milli hópa sem leiðir til aukins ójafnaðar.

Fundurinn lýsir yfir fullum stuðningi við samninganefndir félaganna í yfirstandandi kjaraviðræðum við ríkið og lýsir því yfir að samningar um eitthvað minna en aðrir hafa fengið verða felldir. Það er grundvallaratriði að félagsmenn SFR, SLFÍ og LL fái sanngjarnar leiðréttingar á kjörum sínum í samræmi við aðra samninga sem ríkisvaldið hefur þegar gert við starfsmenn sína, sem og það sem gerðardómur hefur ákvarðað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert