Konur eiga ekki að vera þægar og þöglar

Katja Kettu er hrifin af Íslandi og hún lauk við …
Katja Kettu er hrifin af Íslandi og hún lauk við að skrifa fyrstu bók sína hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rithöfundurinn Katja Kettu ólst upp í Lapplandi þar sem fólk drekkur í sig lykt og liti stutta sumarsins eftir hvítan, kaldan vetur. Hún er gestur á Bókmenntahátíð og bókin hennar, Ljósmóðir af Guðs náð, segir frá ungri konu í helvíti seinni heimsstyrjaldarinnar í Finnlandi. Snilldarblanda af ljótleika, fegurð og erótík.

Það er gott að vera komin aftur til Íslands. Ég var hér fyrir tíu árum og komst að því að hugarfarslegt landslag mitt er eins og Ísland. Mér líkar kuldi, ís og víðátta. Þegar við keyrðum frá Keflavík til Reykjavíkur þá fannst mér eins og risahendur væru að reyna að brjótast í gegnum úfið hraunið allt í kring. Öll þessi form og lögun vekja hugann,“ segir Katja Kettu sem er einn af erlendu rithöfundunum sem teflt er fram á Bókmenntahátíð í Reykjavík þessa dagana. Katja er rísandi stjarna í Finnlandi og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir bækur sínar. Hún hefur gefið út fimm bækur og ein þeirra, Ljósmóðir af Guðs náð, kom út á íslensku í tilefni af bókmenntahátíðinni.

Fólk breytist í skepnur

Í bókinni segir frá ungri konu, Villiauga, sem er rangeyg, fyrirlitin og óskilgetin en býr yfir sérstakri gáfu til að taka á móti börnum. Sögusviðið er seinni heimsstyrjöldin í útnára á Finnlandi þar sem Villiauga starfar í fangabúðum fyrir Þjóðverja. Hún verður ástfangin af SS-foringja og í sögunni fléttar Katja meistaralegri saman grimmd, ljótleika, fegurð og erótík.

„Ég skrifa um atburði frá þessari löngu liðnu styrjöld til að minna okkur á að í öllum stríðum er farið illa með konur og börn. Ég vil líka minna á hvernig við manneskjurnar verðum í stríði. Fyrst verður fólk hrætt og í sjokki, síðan dofnar það upp og neyðist til að gera allskonar hluti sem það gat aldrei ímyndað sér að það gæti gert. Að lokum gerir það hvað sem er til að lifa af. Fólk breytist í skepnur. Við höldum alltaf að við séum betri manneskjur en þær sem gera skelfilega hluti í stríði, en við getum ekki dæmt fólk, því við vitum ekki hvernig við sjálf myndum bregðast við í þeirra aðstæðum,“ segir katja og bætir við að hún hafi áhyggjur af vaxandi hörku í Finnlandi.

„Við höfum gleymt. Og við eigum erfitt með að finna til með fólki í ömurlegum aðstæðum. Ég vil með þessari bók minna á að við verðum að hætta að flokka fólk eftir þjóðerni, stöðu, lit eða einhverju öðru, heldur sem manneskjur.“

Íslendingar skilja húmorinn

Þó saga Kötju sé vissulega styrjaldarsaga þá er hún líka ástarsaga.

„Við verðum svo auðsæranleg þegar við erum ástfangin, varnarlaus og tilbúin til að fórna öllu. En þrátt fyrir það tel ég hvern þann sem upplifir slíkar tilfinningar vera heppinn. Í bókinni gera stríðsaðstæðurnar ástina ekki mjög fagra. Þau loka sig bæði út frá styrjöldinni, telja sér trú um að hún snerti þau ekki. Þau eru í afneitun og lifa í blekkingu. Hann felur sig á bak við myndavélina og álítur sig aðeins rannsakanda en ekki þátttakanda í stríðinu. En stríðið eltir þau uppi að lokum.“

Þrátt fyrir að mikil grimmd og ljótleiki sé í bókinni, þá er þar undirliggjandi húmor, rétt eins og í lífinu.

„Ég held að Íslendingar hafi smekk fyrir þessu skopskyni, kannski af því þeir þekkja harðneskju norðursins. En það er erfitt fyrir suðrænar þjóðir að skilja þetta, ég veit að Frökkum finnst sumum hverjum bækur mínar ógeðslegar. En Tékkum og Norðmönnum líkar þetta mjög vel.“

Fæðingar í sánaböðum

Katja segir að formæður hennar eigi sinn þátt í sögunni.

„Langamma mín tók á móti mörgum börnum þó hún væri ekki ljósmóðurmenntuð, rétt eins og sögupersónan, enda fæddist fólk í Lapplandi gjarnan í sánabaðinu heima hjá sér, því þar er hreint svæði með heitu vatni. Ljósmæður gátu gefið líf og tekið líf, og talið var að þær gætu séð inn í framtíðina og yfir í aðra heima. Fólk þurfti á þeim að halda og bar fyrir þeim virðingu en hræddist þær svolítið líka, taldi þær jafnvel vera göldróttar.“

Eitt af því áhugaverða í bókinni er hversu Villiauga er fróð um jurtir og lækningamátt þeirra.

„Hér áður fyrr fluttist kunnáttan um jurtir í gegnum kynslóðirnar frá konu til konu. Amma mín kenndi mér grunnatriði um hvaða jurtir eru græðandi, hverjar róa magann og fleira í þeim dúr. Þessi sama amma mín var uppi á styrjaldarárunum og hún var ótrúlega jákvæð manneskja. Hún elskaði lífið og ástina. Á tímum þar sem fólk veit ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér, er mikil þörf fyrir ástina.“

Lyktin af kærastanum best

Villiauga er afar næm manneskja og tengd náttúrunni. Víða í sögunni koma fyrir atriði þar sem hún finnur lykt sem nútímafólk er löngu hætt að finna, lyktina af ótta og lyktina af greddu.

„Í Lapplandi þar sem ég ólst upp eru vetur langir og dimmir og allt þakið hvítum snjó. Þá eru engir litir og það finnst ekki lykt af neinu. Loksins þegar stutta sumarið kemur þá verðum við sólgin í lyktina og litina af nývakinni náttúru. Kannski þess vegna skiptir lykt okkur miklu máli. Mér finnst til dæmis lyktin af kærastanum mínum vera rétta lyktin fyrir mig. Fólk á ekki að vera saman nema lyktir þess passi saman. Í okkur öllum búa fornar minningar og vitneskja um lykt og bragð, sem við kunnum því miður ekki lengur að lesa í.“

Æskan í skóginum og háskaleikir á ánni

Náttúran er allt um lykjandi í sögunni, allir hennar kimar og krókar, bæði í okkur og utan við okkur. Því vakna spurningar um hvort Katja hafi sjálf alist upp í nánd við náttúruna.

„Ég ólst upp í litlum bæ í Lapplandi, Rovaniemi, og frændi minn átti sleðahunda sem ég elskaði. Hann var líka með hesta og fleiri skepnur og ég var vön að hjálpa til með kýrnar. Mínar bestu æskuminningar eru frá því að hlaupa um í skóginum með vinum mínum þar sem við spunnum upp ævintýri við hvert fótmál. Við duttum inn í aðra heima og lékum okkur til dæmis að því að ferðast á trjádrumbum sem söfnuðust upp í ánni. Ég veit þetta var háskaleikur og ekki til eftirbreytni, en það var gaman,“ segir Katja og hlær prakkaralegga.

Þýðendur mínir hata mig

Katja hefur góð tök á tungumálinu, hún býr til mikið af nýjum orðum og skeytir saman ólíklegustu orðum. Textinn er á köflum mikil orða- og stílveisla. Fyrir vikið má gera ráð fyrir að það hafi verið ögrandi verkefni fyrir Sigurð Karlsson að þýða bókina, en það hefur honum tekist einstaklega vel.

„Allir þýðendur mínir hata mig á einhverjum tímapunkti vegna þessa,“ segir Katja og hlær. „En þeir hafa staðið sig stórvel og margir þeirra hafa fengið virt þýðingarverðlaun fyrir að sigrast á texta mín og skilað honum yfir á annað tungumál. Tungumálið heima í Lapplandi er mjög ríkt af orðum, en mér finnst líka mjög gaman að búa til orð og leika mér með orð. Ég geri það líka til að komast nær fólki..“

Kynþáttahatur hefur aukist

Katja hefur verið dugleg við að tjá sig um pólitísk málefni heimafyrir. „Því miður hafa mál þróast þannig í Finnlandi að íhaldsstefnu hefur vaxið fiskur um hrygg og kynþáttahatur hefur aukist. Reiðar mannhatursraddir verða æ háværari. Ég tók þátt í mótmælum þar sem ég stóð frammi fyrir tíu þúsund manns og mótmælti stefnu stjórnvalda, meðal annars vegna þess að hún hefur bitnað mest á ungum konum á lægstu laununum. Ég vil ekki þegja. Ég veit að sumir rithöfundar kjósa að þegja þegar kemur að stjórnmálum, og ég virði þá ákvörðun þeirra, en ég sé enga ástæðu til að þegja þegar samviska mín segir mér að láta rödd mína heyrast.“

Sagt að gerast einkaritari

Katja er femínisti og hún segir að konur eigi ekki vera þægar og þöglar.

„Það skiptir máli að segja þeim það. Þær þurfa að virða sjálfar sig og verk sín,“ segir Katja sem er meðfram rithöfundarstarfinu söngkona í pönkhljómsveitinni Confusa.

Katja segist alltaf hafa verið að skrifa og teikna, alveg frá því hún var stelpa.

„Þegar ég var í miðskóla sýndi kennarinn minn listamanni ljóðin mín handskrifuð sem ég hafði lagt hjarta mitt og blóð í eins og títt er um ungt fólk, og hann átti að hjálpa ungum rithöfundum að komast áfram. En hann fékk einhverskonar áfall og hvarf til Spánar með ljóðin mín og ekkert kom út úr þessu. Ég leit á það sem skýr skilaboð um að ég ætti ekki að gerast rithöfundur. Ég sagði samt við kennarann minn að mig langaði til að verða rithöfundur og þá sagði hann að ég ætti kannski að gerast einkaritari,“ segir Katja og hlær.

„Ekki veit ég hvort það var af því að ég var stelpa og frá Lapplandi, en þessi viðbrögð voru mikil vonbrigði fyrir mig, því þetta var stóri draumurinn minn.“

Katja skellti sér í listaháskóla í Turku og útskrifaðist sem leikstjóri í teiknimyndagerð, þannig gat hún sameinað áhuga sinn á teikningu, kvikmyndum og því að segja sögur.

„En ég hélt áfram að skrifa og sýndi starfsfélaga mínum í teiknimyndagerðinni handrit með nokkrum sögum sem ég átti í fórum mínum og hann sýndi rithöfundi það sem leist vel á og fór með það til útgefanda sem sagði: Jú, þú ert góð í þessu, en nú þarftu að fara að vinna. Skrifa af alvöru,“ segir Katja og hlær.

„Þá fór ég í háskólanám í finnskum bókmenntum, því ég vissi að nú ætti ég möguleika. Ég skrifaði handritið að fyrstu bókinni minni, The Sorrow Collector, sem ég reyndar lauk við að skrifa hér á Íslandi. Áhrifa frá íslenskri náttúru gætir í þeirri bók. Himinninn hér er magnaður, með margskipt lög af skýjum. Ég heimsótti Dimmuborgir og þar er auðvelt að láta ímyndunaraflið fara af stað. Ég elska töfraraunsæi og með skrifunum get ég kíkt inn í aðra heima.“

Kvikmynd um ljósmóðurina

Katja segist sjá hlutina fyrir sér mjög myndrænt þegar hún er að skrifa og því skal engan undra að fyrir viku var frumsýnd kvikmynd sem gerð er eftir sögu hennar um ljósmóðurina. Katja skrifaði fyrstu útgáfuna af kvikmyndahandritinu.

„Antti J. Jokinen leikstýrir myndinni og ég er mjög ánægð með hana. Reyndar hefði ég viljað hafa hlut Samastelpunnar Möshu stærri, því mér þykir vænt um hana og samband hennar við aðalpersónuna, Villiauga. En það er ekki auðvelt að velja hverju á að sleppa úr heilli bók þegar gerð er tveggja tíma kvikmynd eftir henni. Áherslan í myndinni er á ástina, og ég er ánægð með það.“

Katja árið 2011 á tónleikum með pönkhljómsveitinni Confusa.
Katja árið 2011 á tónleikum með pönkhljómsveitinni Confusa.
Pönksöngkonan tekur á.
Pönksöngkonan tekur á.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »