Hvaða vörur koma frá Ísrael?

Palestínumenn fögnuðu á föstudag þeirri ákvörðun Sameinuðu þjóðanna að ríkið …
Palestínumenn fögnuðu á föstudag þeirri ákvörðun Sameinuðu þjóðanna að ríkið mætti flagga fána sínum fyrir utan höfuðstöðvarnar í New York. AFP

Eftir að til­laga Bjark­ar Vil­helms­dótt­ur, borg­ar­full­trúa Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, um að Reykja­vík­ur­borg sniðgangi vör­ur frá Ísra­el var samþykkt, hafa margir velt fyrir sér hvaða vörur komi hingað til lands frá Ísrael. Sjá má lista yfir vörurnar á síðu hreyfingarinnar BDS Ísland en meðal þeirra helstu má nefna ýmis krydd frá fyrirtækinu Náttúru, vörur frá Volare undir merkinu „Dr. Melumad“ og „Dead Sea“ snyrtivörulínuna frá Tiger. 

Segir á síðunni að forðast beri vörur sem unnar eru úr hráefnum úr Dauðahafinu þar sem þær séu oftar en ekki helsta innkoma þeirra Ísraela sem hafa hertekið land og byggt landnemabyggðir Gyðinga á palestínsku landi. Þá séu hráefnin oftar en ekki tekin af landi Palestínumanna í algjöru leyfisleysi og án þess að borgað sé fyrir þau.

 

Hjálpumst að við að finna ísraelskar vörur sem seldar eru á Íslandi. Hér söfnum við þeim saman og gerum neytendum þannig auðveldara fyrir með að sniðganga ísraelskar vörur!

Posted by Við kaupum ekki vörur frá Ísrael on Friday, August 1, 2014

 

Ekki er búist við að innkaupabann Reykjavíkurborgar á ísraelskri framleiðslu muni hafa mikil áhrif á vöruinnflutning til landsins frá Ísrael. Yousef Ingi Tamimi, stjórnarmeðlimur hreyfingarinnar, segir að táknrænu áhrif bannsins skipti enda mun meira máli en þau efnahagslegu.

„Ég efast um að Reykjavíkurborg sé í miklum viðskiptum við Ísrael. En punkturinn í þessu felst í að segja við Ísraela: „Á meðan þið haldið áfram að brjóta á mannréttindum Palestínumanna, þá ætlum við ekki að versla við ykkur.“ Þetta mun ekki hafa einhver gríðarleg áhrif á ísraelska efnahagslífið en það eru skilaboðin sem þetta sendir sem skipta máli. Við gætum vel verið að búa til einhvern snjóbolta sem byrjar svo að rúlla.“

Yousef segir að hreyfingin vilji vekja fólk til vitundar um hvaða vörur koma frá Ísrael. „Við viljum að fólk sé meðvitað um þetta og standi með okkur í þeirri hugsun að með samstöðu getum við barist fyrir mannréttindum.“

Palestínumenn berjast til að frelsa dreng úr haldi ísraelskra öryggissveita.
Palestínumenn berjast til að frelsa dreng úr haldi ísraelskra öryggissveita. AFP

Beinist ekki að einstaklingum

„Hérna á Íslandi hefur vitundin vaxið hægt og rólega en maður finnur fyrir mikilli aukningu undanfarin ár, sérstaklega eftir síðustu tvær árásir Ísraela á Gaza. Fólk hefur verið að vakna og opna augun fyrir þessu,“ segir Yousef.

Meginmarkmið hreyfingarinnar felst í að sniðganga ísraelska framleiðslu og hætta fjárfestingum í landinu þangað til Ísrael virði réttindi Palestínumanna í samræmi við alþjóðalög.

„Hún endar því um leið og Ísrael viðurkennir tilvist Palestínu og þau réttindi sem íbúar landsins eiga að hafa, rétt eins og ég og þú.“

Yousef tekur einnig fram að sniðgangan beinist ekki að einstaklingum. „Meiningin er ekki að ef þú hittir ísraelskan ferðamann þá eigir þú bara að hundsa hann,“ segir hann kíminn. „Þetta er ekki einstaklingsbundið heldur er þetta bundið við landið í heild sinni.“

Hér má finna lista með vinsælum ísraelskum vörumerkjum. Vörurnar eru oftar en ekki unnar úr hráefnum frá herteknum svæð...

Posted by Við kaupum ekki vörur frá Ísrael on Tuesday, August 5, 2014

Líta til fordæmis í Suður-Afríku

Hreyfingin lítur meðal annars til fordæmis í Suður-Afríku og segir í tilkynningu að fjölmargir þeirra sem börðust gegn aðskilnaðarstefnunni þar í landi hafi lýst því yfir að alþjóðlega sniðgönguherferðin gegn aðskilnaðarstjórninni hafi haft mikil áhrif á sínum tíma.

„Það tók gríðarlegan tíma að fá Suður-Afríku til að láta af aðskilnaðarstefnunni. Upphaf sniðgöngunnar á þeim tíma einkenndist ekki af því að allir væru sammála um hvað gera skyldi. Það liðu mörg ár þangað til Bandaríkin, Ísland og fleiri ríki áttuðu sig á því að friðarviðræður væru ekkert að ganga. Þá byrjaði boltinn að rúlla um leið og ríkin byrjuðu að taka þátt í þessu.“

Evrópska hreyfingin horfir til Íslands

Alþjóðlega BDS hreyfingin var stofnuð árið 2005 en BDS stendur fyrir „Boycott, Divestment and Sanctions“ eða sniðgöngu, losun fjárfestinga og viðskiptahömlur. Hér á landi er hún hins vegar nokkuð ung en hún er nýorðin ársgömul að sögn Yousefs. 

„Við stofnuðum hana í fyrra í kjölfar árásarinnar á Gaza en félagið Ísland-Palestína hefur líka beitt sér lengi fyrir þessari sniðgöngu. Á alþjóðavettvangi kom ákallið um stofnun einhvers konar hreyfingar eftir að Alþjóðaglæpadómstóllinn ályktaði að bygging Ísraels á aðskilnaðarmúrnum væri ólögleg. Þá komu yfir 170 hreyfingar og stjórnmálasamtök saman og byrjuðu að kalla eftir sniðgöngu vara frá Ísrael.“

Alþjóðlega hreyfingin hefur brugðist vel við fréttum af innkaupabanni Reykjavíkurborgar. „Hreyfingin í Evrópu er gagntekin af þessu. Hún hefur náttúrulega horft mjög mikið til Íslands, einkum vegna þess að við vorum fyrsta ríki Vestur-Evrópu til að viðurkenna Palestínu, en líka sökum þeirrar baráttu sem hefur átt sér stað hérna fyrir mannréttindum Palestínumanna.“

Palestínumaður gengur á brún veggjar sem prýddur er slagorðum til …
Palestínumaður gengur á brún veggjar sem prýddur er slagorðum til stuðnings Mohammed Allan, sem er í haldi Ísraela án þess að réttarhald hafi farið fram. AFP

Þrjú þúsund manna mótmæli

„Við höfum gert ótrúlega hluti eftir að Íslendingar fóru að opna augun fyrir þessu í kringum 2008 og 2009. Þrjú þúsund manna mótmæli á síðasta ári eru gott dæmi um að hér á landi er gríðarlegur fjöldi einstaklinga sem eru meðvitaðir um að það sem er í gangi er ekki í lagi.“

Af og til heyrast raddir um að í þessari baráttu felist gyðingahatur og má finna athugasemdir í þá veru neðan við fréttir margra netmiðla. Yousef segir að slíkt tal sé aðeins til þess fallið að drepa umræðuna.

„Ef gagnrýni á Ísraela og aðskilnaðarstefnu þeirra, morð, óþarfa handtökur og frelsissviptingar, felur í sér gyðingahatur, þá erum við einfaldlega á rangri hillu. Við erum á móti þessari pólitísku hugsjón síonismans og þessari hugmynd um Stór-Ísrael. Sú stefna á ekkert rétt á sér samkvæmt alþjóðlegu stjórnmálasögunni eða flestum afbrigðum gyðingdóms.“

Gyðingahatur ekki til umræðu

Yousef nefnir sem dæmi að margir gyðingar séu miklir baráttumenn fyrir réttindum Palestínumanna. „Jewish voice for peace og mörg fleiri samtök eru algjörlega á móti stefnu Ísraels í þessum efnum. Væru þessi samtök gyðinga ekki virk í andgyðingalegum aðferðum ef þetta væri raunin?“ spyr Yousef.

Þá segir hann að ásakanir um gyðingahatur séu móðgandi fyrir þá sem í raun verða fyrir því. „Ef þú gagnrýnir Ísrael og það fyrsta sem þú heyrir að þú sért gyðingahatari þá er það niðurlægjandi fyrir þá sem verða fyrir gyðingahatri. Það er raunverulegt vandamál í heiminum í dag og eitthvað sem við þurfum að takast á við. Öll umræða um að þetta sé gyðingahatur finnst mér bara mjög sorgleg.“

Yousef Ingi Tamimi
Yousef Ingi Tamimi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka