Nemendur 5. bekkjar fengu spjaldtölvur

Nemendur í 5. bekk Áslandsskóla fengu tölvur sínar í morgun.
Nemendur í 5. bekk Áslandsskóla fengu tölvur sínar í morgun. mbl.is

Frá því um síðustu áramót hefur markvisst verið unnið að undirbúning spjaldtölvuvæðingar í Áslandsskóla. Í morgun voru fyrstu tækin afhent. Þá fengu nemendur í 5. bekk skólans sín tæki afhent. 

 „Með þessu er verið að stíga mikilvæg skref í að auka fjölbreytni og efla framþróun í hafnfirsku skólastarfi,“ er haft eftir Rósu Guðbjartsdóttur, formanni fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar, í fréttatilkynningu. „Hraðar tæknibreytingar bjóða upp á óendanlega möguleika í kennsluháttum og námi og er spjaldtölvuvæðing liður í að nútímavæða skóla bæjarins og fjárfesta í framtíð hafnfirskra skólabarna. Við vitum að reynsla annarra skóla af því að nota spjaldtölvur er góð, ekki síst við að bjóða upp á einstaklingsmiðað nám. Stefnt er að því að spjaldtölvur verði teknar  til notkunar í öðrum skólum bæjarins á komandi misserum og árum.“ 

Á næstu vikum munu um 300 nemendur á frá 5. – 10. bekk skólans fá tæki til notkunar.

 Leifur S. Garðarsson skólastjóri Áslandsskóla segir kennara hafa fengið námskeið frá utanaðkomandi fagaðilum í skólann svo og hafa verið nokkur námskeið þar sem umsjónamaður innleiðingarinnar og kennarar kenna og miðla af reynslu sinni. „ Við höfum heimsótt aðra skóla sem hafa tekið iPad upp við kennslu, sótt fræðslu erlendis ásamt því að Áslandsskóli er í góðu samstarfi við aðra skóla og sveitarfélög sem eru í svipuðum hugleiðingum. Þetta er frumkvöðlastarf, mikill hraði og neysla okkar á upplýsingum er mikil og auðvelt að nálgast upplýsingar. Allt þetta kallar á breytta kennsluhætti, eilítið annan hugsunarhátt sem við í Áslandsskóla erum tilbúin að takast á við.  Góður undirbúningur og markviss uppbygging er lykilatriði og allir hér átta sig á að þetta er ferli sem tekur tíma.  Við ætlum að taka þátt í framtíðinni og víst má telja að einhver hluti grunnskólabarna í dag á eftir að vinna störf sem í dag eru kannski ekki til,“ segir Leifur í fréttatilkynningu.

Nemandahópurinn með tölvurnar sínar.
Nemandahópurinn með tölvurnar sínar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert