Röð mistaka í fíkniefnamáli

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Röð mistaka varð til þess að taka þarf mál Einars Arnar Adolfssonar og Finns Snæs Guðjónssonar aftur til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Aðalmeðferð í málinu fer fram eins fljótt og auðið er.

Hæstiréttur vísaði málinu til héraðsdóms í gær en dómari sem dæmdi í málinu í Héraðsdómi Reykjaness hafði áður úrskurðað annan manninn í gæsluvarðhald vegna málsins.

Ástríður Grímsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjaness, úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald árið 2011 vegna málsins og felldi síðan dóm í málinu í fyrra. Einar Örn og Finnur Snær voru dæmdir til sex ára fangelsisvistar 23. maí á síðasta ári fyrir að smygla hingað til lands 20.225 e-töflum frá Danmörku.

Tollverðir fundu fíkniefnin í farangri Einars Arnar þegar hann kom til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn þann 23. ágúst árið 2011. Þá var hann ekki orðinn 18 ára. Hann fór til Gautaborgar, svo til Kaupmannahafnar og loks til Amsterdam til að taka á móti efnunum.

Dómur gæti legið fyrir innan tveggja mánuða

„Hér hafa verið gerð slæm mistök sem á að vera mjög auðvelt að koma í veg fyrir,“ segir Þorgeir Ingi Njálsson, dómsstjóri í Héraðsdómi Reykjaness, í samtali við mbl.is.

Hann segir fyrstu mistökin hafa orðið þegar Ástríði var úthlutað málinu í héraðsdómi þrátt fyrir að hafa áður dæmt annan manninn til að sæta gæsluvarðhaldi.

Ef allt gengur vel ættu Einar Arnar og Finnur Snær ekki að þurfa að bíða lengi eftir aðalmeðferð fari fram í málinu.

„Ég geri ráð fyrir að gögn málsins berist héraðsdómi frá ríkissaksóknara í næstu viku. Þá strax verður boðað til þinghalds í málinu og reynt að leiða það til lykta af hálfu dómstólsins svo fljótt sem frekast er unnt. Vonir mínar standa til þess að dómur geti legið fyrir innan tveggja mánuða. Það verður sett í algjöran forgang að ljúka þessu máli hér,“ segir Þorgeir Ingi

Frétt mbl.is: Sex ára fangelsi fyrir smygl á e-töflum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert