Flestir telja reglurnar hæfilegar

AFP

Rúmur þriðjungur landsmanna telur að reglur sem heimila erlendum ríkisborgurum að setjast að á Íslandi séu of strangar en 26% telja reglurnar hins vegar of rúmar. Stærsti hópurinn telur reglurnar hins vegar hæfilegar eða 40%.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Gallup. Yngra fólk er líklegra til að telja reglurnar of strangar en þeir sem eldri eru. Það saman á við um íbúa höfuðborgarsvæðisins í samanburði við íbúa landsbyggðarinnar. Þá telja þeir sem hafa háskólamenntun frekar að reglurnar séu of strangar en þeir sem hafa minni menntun að baki.

Mikill munur er á afstöðu fólks eftir því hvaða stjórnmálaflokk það kýs. Þeir sem þannig styðja Vinstrihreyfinguna– grænt framboð telja helst að reglurnar séu of strangar (69%) og á hæla þeirra koma kjósendur Bjartrar framtíðar (54%), stuðningsmenn Samfylkingarinnar (52%) og þeir sem myndu kjósa Pírata (44%). 

Hins vegar telja mun fleiri kjósendur ríkisstjórnarflokkanna reglurnar of rúmar en þeir sem telja þær of strangar. Þannig telja 49% kjósenda Framsóknarflokksins reglurnar of rúmar en 9% að þær séu of strangar. 39% kjósenda Sjálfstæðisflokksins telja reglurnar of rúmar og 13% of strangar. Aðrir telja reglurnar vera hæfilegar.

Þegar spurt var á sömu nótum um reglur sem heimila flóttamönnum að setjast að á Íslandi telja 42% þær reglur of strangar en 26% þær of rúmar. Aðrir, eða 32% telja reglurnar hæfilegar. Líkt og í fyrri spurningunni telja mun fleiri kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna reglurnar og strangar en fleiri kjósendur stjórnarflokkanna að þær séu of rúmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert