Ímon-málið hefst í Hæstarétti

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Flutningur á Ímon-málinu svokallaða fyrir Hæstarétti hófst í morgun, en þar eru Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasvið bankans og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans, ákærð fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í tengslum við lánveitingar til eignarhaldsfélaganna Ímon og Aza­lea Resources Ltd.

Sigurjón og Elín eru ákærð fyrir umboðssvik vegna lánveitingar til Ímon 30. september 2008 og þau öll vegna markaðsmisnotkunar vegna sömu viðskipta. Þá eru þeir Sigurjón og Steinþór ákærðir fyrir markaðsmisnotkun vegna lánveitingar til Ímon og Azalea þann 3. október 2008. Samtals voru lánin upp á um 8,8 milljarða og voru lánin til Ímon fyrir um 4% af hlutafé í bankanum.

Í héraðsdómi voru þau Sigurjón og Elín sýknuð af ákærunni, en Steinþór var fundinn sekur og fékk hann 9 mánaða dóm, þar af 6 mánuði skilorðsbundna.

Ákærðu eru öll mætt í réttarsal, en lögmenn þeirra eru þau Reimar Pétursson, Helga Melkorka Óttarsdóttir og Sigurður G. Guðjónsson. Helgi Magnússon, vararíkissaksóknari flytur málið fyrir hönd ákæruvaldsins, en Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, sem flutti málið í héraðsdómi, fylgist með úr sal.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var sýknaður í Imon-málinu …
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var sýknaður í Imon-málinu í héraði. mbl.is/Þórður
Sigríður Elín Sigfúsdóttir var sömuleiðis sýknuð, en hún var fyrrverandi …
Sigríður Elín Sigfúsdóttir var sömuleiðis sýknuð, en hún var fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans. mbl.is/Þórður
Steinþór Gunnarsson var sakfelldur og dæmdur til 9 mánaða fangelsis …
Steinþór Gunnarsson var sakfelldur og dæmdur til 9 mánaða fangelsis í héraði. Hann áfrýjaði dómnum. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is